Ekkert erlent flugfélag hefur skoðað möguleikann á því að bjóða upp á flug til útlanda frá Akureyri eða Egilsstöðum frá því að Ryanair skoðaði að fljúga þangað fyrir nokkrum árum síðan. Þetta kemur fram í frétt ferðavefsins Túrista, sem leitaði svara um málið hjá Isavia. Túristi hefur einnig verið í sambandi við talsmenn easyJet, Norwegian og þýsku flugfélaganna Air Berlin og Germanwings, sem hafa sagt að engin áform séu uppi um að hefja áætlunarflug til Akureyrar. Þau séu hins vegar alltaf að leita að nýjum tækifærum.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa starfshóp til að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Starfshópurinn á að greina framkvæmdaratriði, kostnað, þátttöku einstakra ríkisstofnana/fyrirtækja, landshluta og fyrirtækja í viðkomandi landshluta og markaðssetningu. Hópurinn á að skila af sér tillögum í formi aðgerða- og kostnaðaráætlunar eftir þrjá mánuði. Fulltrúar frá ráðuneytum, Íslandsstofu og Isavia sitja í hópnum. Stjórnvöld vilja stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið með þessum tillögum.
Fyrir nokkrum árum skoðaði Ryanair að hefja áætlunarflug til Íslands, og þá meðal annars til Akureyrar. Samkvæmt fréttum Túrista þótti aðflugið fyrir norðan hins vegar of erfitt.
Áætlunarflug verður í sumar frá Akureyri til austurstrandar Grænlands, og íslenskar ferðaskrifstofur bjóða reglulega upp á beint flug frá Akureyrarvelli til útlanda.