Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra er nú staddur á alþjóðlegri ráðstefnu um fjármögnun þróunarsamvinnu í Eþíópíu. Þaðan fer hann svo til Malaví, þar sem hann mun kynna sér starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar þar í landi. Það vakti athygli einhverra að enginn starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar er með Gunnari Braga í för, en umdæmisstjóri stofnunarinnar í Malaví tekur svo á móti honum í Malaví.
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um það hvers vegna enginn frá Þróunarsamvinnustofnun fór á ráðstefnu um fjármögnun þróunarsamvinnu var svarið að ráðstefnan sé á vegum Sameinuðu þjóðanna og þess vegna heyri málið undir utanríkisráðuneytið en ekki Þróunarsamvinnustofnun. Þetta er allt svolítið skondið í ljósi þess að Gunnar Bragi hefur lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður, og færð hvert? Jú inn í utanríkisráðuneytið. Vilji hans er því að þetta verði allt eitt og sama batteríið.
Svo er það ábyggilega sérkennilegt fyrir íslenska ráðherra, og það á líka við um forvera Gunnars Braga, að mæta á ráðstefnur sem þessar þar sem þróunarsamvinna og fjármögnun hennar er rædd. Íslendingar eru enda í neðstu sætum velmegunarríkja þegar kemur að fjármagni til þróunaraðstoðar og mjög langt frá markmiðinu um að 0,7 prósent þjóðarframleiðslu fari í slíka aðstoð. Við erum svo sem ekki ein um það, meðaltal OECD ríkja er um 0,3 prósent. Við erum hins vegar líka talsvert frá því, með um 0,2 prósent af þjóðarframleiðslunni í þróunaraðstoð.