Það er ekki bara á Íslandi sem Evrópusambandið er kosningamál, þótt formerkin séu kannski öðruvísi annars staðar. Líkt og gerðist fyrir síðustu kosningar á Íslandi var því lofað fyrir bresku þingkosningarnar að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Líkt og á Íslandi endaði sá flokkur í meirihluta sem lofaði þessu. Þar lýkur þó líkindunum. Aðstæður eru vissulega ólíkar. Bretar eru þegar í Evrópusambandinu fyrir það fyrsta, og í öðru lagi ætlar David Cameron að reyna að semja um breytingar á sambandinu áður en til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kemur. Nú þegar hefur hann reyndar lent í hremmingum með þau plön sín, en það er önnur saga.
Þrátt fyrir að kosningar séu afstaðnar og Cameron hafi fengið sterkt umboð til að stjórna landinu hefur hann haldið sig við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún verður haldin fyrir árslok 2017, þegar enn verður talsvert eftir af kjörtímabilinu í Bretlandi.
Sem sagt, í Bretlandi mun þjóðin kjósa um það hvort hún vill vera áfram í Evrópusambandinu eða hvort hún vill það ekki, þrátt fyrir að niðurstaðan gæti orðið önnur en stjórnvöld kysu. Þjóðarviljinn felur sem sagt ekki í sér pólitískan ómöguleika þar í landi.