Alþingi samþykkti í dag frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um styrki til rekstraraðila í veitingageiranum. Allt tóku 36 þingmenn þátt í atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp í dag, 18 stjórnarliðar og 18 stjórnarandstöðuþingmenn. Enginn ráðherra var viðstaddur atkvæðagreiðsluna.
Þetta vakti athygli og gagnrýndu stjórnarandstöðuþingmenn fjarveru ráðherra harðlega þegar atkvæðagreiðslan var að baki og kvöddu sér hljóð undir liðnum fundarstjórn forseta.
Til skammar, vandræðalegt og hluti af stærri mynd
Logi Einarsson formaður Samfylkingar sagði til „háborinnar skammar“ að engir ráðherrar hefði viðstaddir og Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar sagði að „þessi vanvirðing, að hér mæti ekki einn ráðherra við atkvæðagreiðslu,“ væri ekki vanvirðing við stjórnarandstöðuþingmenn, heldur vanvirðing við Alþingi.
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata sagði vandræðalegt að „horfa á galtóma ráðherrabekki“ þegar verið væri að samþykkja stjórnarfrumvarp. Hann vakti athygli á því að sjö stjórnarandstöðuþingmenn hefðu verið fjarverandi við atkvæðagreiðsluna en alls 21 stjórnarliði. Þetta lýsti lítilsvirðingu gagnvart almenningi, Alþingi og „öllum verkum ríkisstjórnarinnar líka.“
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar sagði þetta hluta af stærri mynd og sagði að sökum þess að fjármálaráðherra gat ekki flutt frumvarp sitt um viðspyrnustyrki í síðustu viku væri útlit fyrir að það frumvarp yrði ekki afgreitt úr þinginu fyrr en eftir kjördæmaviku.
„Styrkirnir munu ekki skila sér fyrr en eftir margar margar vikur, ef ekki mánuði. Það að ráðherrar geti ekki einu sinni sýnt fólkinu sem er verið að styðja við þá virðingu að vera hérna með okkur inni í salnum og greiða atkvæði um þetta mál, það er hálf ömurlegt framhald af þessu sem ég var að nefna,“ sagði Jóhann Páll.
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins sagði þetta sýna „svart á hvítu hvernig ríkisstjórnin tekur á sínum eigin málum“.
Óli Björn tók á sig sökina
Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins kvað sér síðan hljóðs og sagði að það væri ekki óeðlilegt að það væru gerðar athugasemdir við að það hefðu engir ráðherrar verið viðstaddir atkvæðagreiðsluna, en hann útskýrði síðan að það væri á hans eigin ábyrgð og annarra tengiliða þingflokkanna við ráðherraliðið.
„Ég verð hinsvegar að taka þann kaleik og drekka hann. Ég stóð í þeirri trú að atkvæðagreiðslan yrði kl. 14:30. Ég gaf mínum ráðherrum og ég veit að félagar mínir í Framsóknarflokki og VG gáfu sínum ráðherrum þessar upplýsingar einnig. Það er nú ekki meira um það að segja, en svona er þetta og það er alveg ljóst að ráðherrarnir þurfa líka að sinna sínum embættisskyldum, eru störfum hlaðnir og ætluðu að mæta hérna 14:30, það er segja, þeir sem á annað borð voru ekki annarsstaðar,“ sagði Óli Björn.
Logi Einarsson steig að því loknu aftur í ræðustól og kallaði eftir því að ráðherrar fengju, eins og aðrir þingmenn, SMS með upplýsingum um tímasetningar atkvæðagreiðslna, svo þeir þyrftu ekki að treysta á háttvirtan þingmann Óla Björn í þessum efnum.