Fjármála- og efnahagsráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvernig niðurfærslur vegna 110 prósent leiðarinnar dreifðust eftir niðurfærsluupphæð, tekjuhópum eða aldri. Ríkisskattstjóri býr heldur ekki yfir þeim upplýsingum. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þigmanns Framsóknarflokksins, um niðurfærslur húsnæðislána samkvæmt 110 prósent leiðinni.
Í svarinu eru auk þess sagt frá því að heildarniðurfærslur skulda heimila vegna 110 prósent leiðarinnar hafi numið 46 milljörðum króna og meðalniðurfærsla hvers láns nam 3,6 milljónum króna. Þar segir einnig: " Ríkissjóður bar ekki beinan kostnað af 110 prósent-leiðinni þar sem hún var framkvæmd af fjármálafyrirtækjunum (þ.m.t. Íbúðalánasjóði) og lífeyrissjóðum samkvæmt samkomulagi við stjórnvöld. Báru þeir aðilar alfarið kostnaðinn við framkvæmdina. Kostnaður Íbúðalánasjóðs var um 7,5 milljarðar kr. samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og er sá kostnaður jafnframt óbeinn kostnaður ríkissjóðs." Alls voru um 13 þúsund af þeim 16.700 umsóknum sem bárust um 110 prósent leiðina samþykktar. Einungis þeir sem voru með neikvæða eiginfjárstöðu gátu sótt um 110 prósent leiðina, en samkvæmt henni gátu þeir fengið lán sín lækkuð niður í 110 prósent af markaðsvirði eignar sinnar.
Um er að ræða upplýsingar um stöðu niðurfærslna vegna 110 prósent leiðarinnar í lok árs 2012, samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Upplýsingar hafa oft verið birtar opinberlega áður.
Sækja þurfti um 110 prósent leiðina fyrir mitt ár 2011. Frá þeim tíma hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir umsækjenda komu, hækkað um 35 prósent. Tölur Hagstofu Íslands hafa sýnt mikla aukningu í eignarmyndun vegna húsnæðis frá þessu tímabili.
Beiðni stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið svarað
Fyrirspurn Vigdísar var lögð fram 3. júlí síðastliðinn. Sama dag óskuðu tíu þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi eftir nýrri skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, hina svokölluðu leiðréttingu, þar sem skýrsla Bjarna Benediktssonar, sem skilað var nokkrum dögum áður, hafi ekki svarað öllum þeim spurningum sem hún átti að gera að þeirra mati. Þingmennirnir tíu fóru meðal annars fram á að fá að vita hvernig heildarupphæð leiðréttingarinnar, um 80,4 milljörðum króna, skiptist eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki og hvernig heildarupphæðin dreifist á milli allra framteljenda eftir hreinum eignum.
Þingmennirnir tíu sem lögðu fram beiðnina voru Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Róbert Marshall, Svandís Svavarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Oddný Harðardóttir, Brynhildur Pétursdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Tók átta mánuði að svara fyrirspurn
Í greinargerð sem fylgir beiðninni sagði að Katrín Jakobsdóttir hafi lagt fram fyrirspurn í 15 liðum um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána 11. nóvember 2014. Þar sagði ennfremur: „Tæpum mánuði seinna barst „svar“ fjármála- og efnahagsráðherra þar sem engri spurningu var svarað efnislega en svörum lofað á vorþingi með framlagningu sérstakrar skýrslu ráðherra um aðgerðina. Málið olli nokkru uppnámi á Alþingi og svaraði ráðherra í kjölfarið fimm af 15 spurningum þingmannsins 29. janúar. Beðið var eftir frekari svörum í fimm mánuði til viðbótar og 29. júní sl. birti fjármála- og efnahagsráðherra svo loks skýrslu sína um lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðisveðlána (809. mál). Skýrslan svarar því miður ekki öllum þeim spurningum sem settar voru fram í fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur tæpum átta mánuðum áður. Sérstaklega vantar svör við 1., 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar og er hér leitast við að fá loksins svör við þessum spurningum. Að auki er farið fram á upplýsingar um hlutfall skuldaniðurfærslunnar eftir eignastöðu og eftir tekjum miðað við árið 2014, en upplýsingar þar að lútandi ættu nú í sumar að geta verið unnar úr skattframtölum fyrir það ár.“
Spurningarnar fimm sem stjórnarandstöðuþingmennirnir vildu fá svör við voru eftirfarandi:
- Hvernig skiptist heildarupphæð þeirrar fjárhæðar sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga milli beinnar höfuðstólslækkunar á fasteignaveðlánum einstaklinga og frádráttarliða, svo sem fasteignaveðkrafna án veðtrygginga, vanskila og greiðslujöfnunarreikninga?
- Hverjir eru frádráttarliðirnir og hver er skiptingin milli þeirra í krónum talið?
- Hvert er heildarhlutfall beinnar höfuðstólslækkunar, þ.e. lækkunar höfuðstóls að undanskildum frádráttarliðum, af verðtryggðum fasteignaveðlánum?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvort sem þeir nutu lækkunar eða ekki? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á tekjubil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil?
- Hvernig dreifist heildarupphæðin sem varið hefur verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána á milli allra framteljenda árið 2014 eftir hreinum eignum, þ.e. eignum umfram skuldir? Hvert er hlutfall heildarupphæðarinnar sem skiptist niður á eignabil hvers tíunda hluta fyrir sig, miðað við eignir á árinu 2014? Hver er fjöldi framteljenda á bak við hvert eignabil?
Beiðnin ekki samþykkt á Alþingi
Beiðni þingmannanna var ekki samþykkt á Alþingi og þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að svara henni. Í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag kemur fram að komi fram beiðni um skýrslu verði henni svarað.
Uppfært klukkan 17:06
Í upprunalegri frétt Kjarnans var sagt að beiðni stjórnarandstöðuþingmanna um viðbótarskýrslu um höfuðstólslækkun verðtryggðra íbúðalána síðastliðið vor hefði ekki verið svarað. Það er ekki rétt heldur var beiðnin ekki samþykkt á Alþingi. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við þessar upplýsingar. Beðist er velvirðingar á mistökunum.