Hvorki Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) né stjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) nýttu rétt sinn til að tilnefna fulltrúa í nýja verðlagsnefnd búvara. Tilkynnt var um nýja nefnd í dag og ákvað velferðarráðuneytið að tilnefna tvo fulltrúa í stað fulltrúa launþega og neytenda.
Ólafur Friðriksson, sem sætt hefur ásökunum um að sitja beggja megin borðs þegar kemur að ákvörðun um verðlag búvara, en hann sat um árabil í stjórnum fjölda fyrirtækja með stjórnendum Kaupfélags Skagfirðinga, sem er annar eigandi Mjólkursamsölunnar (MS), var endurskipaður formaður nefndarinnar af Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ólafur er skrifstofustjóri í ráðuneyti Sigurðar Inga.
Utan formanns sitja tveir fulltrúar Bændasamtaka Íslands, tveir fulltrúar Samtaka afurðarstöðva í mjólkuriðnaði og, líkt og áður var greint frá, tveir fulltrúar skipaðir af velferðarráðuneytinu, í stjórn verðlagsnefndar búvara.
Ný nefnd er skipuð eftirfarandi nefndarmönnum:
- Ólafur Friðriksson, formaður
- Sigurður Loftsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Jóhannes Æ. Jónsson, tilnefndur af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
- Guðrún Sigurjónsdóttir, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
- Björg Bjarnadóttir, tilnefnd af velferðarráðuneytinu
- Sverrir Björn Björnsson, tilnefndur af velferðarráðuneytinu
Ríkisendurskoðun taldi ekki rétt að fjalla um hæfi
Málefni verðlagsnefndarinnar komust í hámæli í október í fyrra eftir að Kastljós fjallað um að Ólafur Friðriksson, formaður nefndarinnar, hafi um árabil setið í stjórnum fjölda fyrirtækja með stjórnendum Kaupfélags Skagfirðinga, sem er annar eigandi MS.
Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss sagði Sigurður Ingi að hann ætlaði að fara fram á að Ríkisendurskoðun færi yfir ákvarðanir nefndanna tveggja síðustu tvö til þrjú árin. Beiðni um úttektina barst í október og í kjölfarið hófst forkönnun. Í lok apríl skilaði Ríkisendurskoðun þeirri niðurstöðu að hún gerði ekki athugasemd við stjórnsýslu verðlagsnefndar búvara og ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem Ólafur veitir líka formennsku. Hún taldi ennfremur ekki rétt að fjalla um almennt hæfi Ólafs né að taka afstöðu til ymissa álitamála, það væri á færi stofnana eins og umboðsmanns Alþingis.
ASÍ og BSRB vilja mjólkuriðnað undir samkeppnislög
Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun um stöðu mála í mjólkuriðnaði 11. júní síðastliðinn þar sem tilkynnt var að hvorki BSRB né ASÍ myndu skipa fulltrúa í nefndina. Þar sagði m.a.: „Stjórnvöld hafa í samstarfi við bændur og afurðastöðvar gert miklar breytingar á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar. Það hefur löngum verið skoðun miðstjórnar ASÍ að núverandi fyrirkomulag í mjólkuriðnaði sé hvorki besta leiðin til að bæta hag neytenda né að það skapi næga hvata fyrir framleiðendur til þess að auka samkeppnishæfni, framleiðni og lækka vöruverð. Þvert á móti hefur núverandi fyrirkomulag komið í veg fyrir að virkja þá hvata sem leiða til heilbrigðrar samkeppni sem kemur öllum til góðs. Nýleg dæmi, þar sem MS hefur kerfisbundið komið í veg fyrir innkomu nýrra aðila á markað gert stórum aðilum kleift að nýta, og í mörgum tilfellum misnota, sér markaðsráðandi stöðu til að koma í veg fyrir samkeppni.
Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað ályktað að aukinn innflutningur landbúnaðarvara, minnkun framleiðslutengdra styrkja og afnám opinberrar verðlagningar geti bæði aukið framleiðni og samkeppnishæfni mjólkuriðnaðar og skilað ábata til framleiðenda og jafnt verið eina vörn sem neytendur hafa gegn þessum einokunartilburðum. [...]Nú er svo komið að miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB hafa sameiginlega lýst því yfir, að samböndin muni hætta allri þátttöku í Verðlagsnefnd mjólkurafurða. Jafnframt er það krafa miðstjórnar ASÍ að allur mjólkuriðnaðurinn, frá framleiðendum til smásöludreifingar, verði felldur undir ákvæði samkeppnislaga og lúti sömu reglum og önnur atvinnustarfsemi, þ.m.t. ákvæði um takmörkun á áhrifum og umfangi markaðsráðandi aðila.“