Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, Samiðn, Grafía - stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum, Félag hársnyrtisveina og Félag vélstjóra og málmtæknimanna munu á næstunni boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um það hvort boðað verður til verkfalls.
Þetta var ákveðið í dag eftir fund viðræðunefndar stéttarfélaganna og Samtaka atvinnulífsins. Á fundinum var niðurstaðan að „það hefði ekki tilgang að halda viðræðum áfram vegna árangursleysis og mikils ágreinings um launalið samninga,“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu félaganna.
Í Rafiðnaðarsambandinu eru allir launþegar í rafiðnaðargeiranum og í Matvís eru bakarar, framreiðslumenn, kjötiðnaðarmenn, matreiðslumenn og aðrir sem starfa við framreiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum. Að Samiðn kemur starfsfólk í bílgreinum, hársnyrtigreinum, málmtækni, tækniteiknun, byggingagreinum, garðyrkju og skipasmíðum. Þetta fólk fer því í verkfall ásamt starfsfólki í prent- og miðlunargreinum, hársnyrtisveinum, vélstjórum og málmtæknimönnum, ef verkfallsboðun verður samþykkt.
Í gær var greint frá því að félagsmenn í VR, aðildarfélögum Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Flóabandalagsins, sem eru Efling, Hlíf og VSFK, munu greiða atkvæði um hvort hefja skuli verkföll í lok mánaðarins.
Ef af því verður verða verkföll hjá hópbílafyrirtækjum, hótelum, gististöðum og baðstöðum, í flugafgreiðslu, hjá skipafélögum og matvöruverslunum og olíufélögum.
Þessi verkföll munu bætast við verkföll Starfsgreinasambandsins og BHM, sem þegar eru í gangi.