Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað þjónustar allt Austurland, með alla sína farartálma og fjallvegi. Það kann að hljóma ótrúlega en það kemur einstaka sinnum fyrir að það þurfi að senda fólk þaðan í nokkru flýti með sjúkraflugi til Reykjavíkur.
Þá kemur sér nú vel að á Norðfirði er sjúkraflugvöllur. En bíðið við, hann er víst ónothæfur nema einstaka sinnum yfir hásumarið, annars ku honum vera helst lýst sem drullusvaði. Það þýðir að keyra þarf með sjúka og slasaða í Neskaupstað til Egilsstaða í flug, og þá oft í vetrarfærð með tilheyrandi seinkunum.
Til að mynda þegar fyrirburi fæðist á Norðfirði, þarf fyrst að fljúga með hitakassa á Egilsstaði, keyra hann í Neskaupstað, og svo aftur á Egilsstaði þaðan sem flogið er með fyrirburann. Þá hafa sjúkraflutningamenn oft ekið með fólk á Norðfjörð og þaðan rakleiðis aftur með það í sjúkraflug á Egilsstöðum.
Það kostar litlar 150 milljónir króna að byggja upp neyðarflugvöllinn við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og malbika, en framkvæmdin er ekki á áætlun að minnsta kosti næstu árin. Hins vegar afgreiddi umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á dögunum umdeilt frumvarp úr nefndinni sem kveður á um að skipulagsvald við flugvelli verði tekið af sveitarfélögunum, meðal annars vegna deilna um Reykjavíkurflugvöll og þá ekki síst í tengslum við sjúkraflugið. Ákveðin þversögn hér á ferðinni.
Hvar eru flugvallarvinir Austurlands?