Í marga mánuði hefur verið talað um að dómsdagur nálgist hjá Grikkjum. Í marga mánuði í röð hafa grísk stjórnvöld varað við því að peningarnir séu að klárast og við þeim blasi greiðslufall ef ekkert verði að gert. Nú virðist sem þessi dómsdagur geti í raun og veru verið að renna upp. Einhvern veginn hefur nú verið trúað á það þrátt fyrir allar svartsýnar spár að á endanum yrði komist að samkomulagi og Grikkland yrði ekki látið fara á hliðina.
Það sem ekki hefur samist um milli grískra stjórnvalda og lánardrottna þeirra, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu, eru skilmálarnir sem Grikkir þurfa að uppfylla svo þeir fái áframhaldandi fjárveitingar.
Það fer ekkert á milli mála að margt er að í Grikklandi og margt má því bæta. Í raun hefðu Grikkir líklega ekkert átt að taka upp evruna. En ábyrgðin á núverandi ástandi er ekki eingöngu á herðum þeirra. Neyðarlánin sem þeir hafa þegar fengið og þau skilyrði sem þeim lánum fylgdu hafa alls ekki virkað eins og planið var.
Það sem meira er, skuldirnar hjá Grikkjum eru ekki lengur við einkaaðila heldur við þessar þrjár yfirþjóðlegu og alþjóðlegu stofnanir. Ef það verður greiðslufall hjá Grikkjum, hvað ætla Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að gera þá? Hver er þeirra ábyrgð og hvað verður um alla þessa milljarða evra sem Grikkir skulda þeim núna?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.