Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur áhyggjur af því að fyrirhuguð kísilverksmiðja PCC á Bakka við Húsavík geti reynst dauðagildra vegna nálægðar við þekkt jarðskjálftasvæði. Í samtali við RÚV sagði Páll að byggingarlóð verksmiðjunar væri á einum óheppilegasta stað Íslands fyrir málmbræðslu.
PCC hyggst reisa verksmiðju sína í 500 metra fjarlægð hinu svokallaða Húsavíkur- og Flateyjarmisgengi sem er eitt virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Jarðeðlisfræðingurinn segir staðsetningu kísilversins óheppilega og óttast að stórhætta geti skapast fyrir starfsfólk inni í verksmiðjunni.
Það leið ekki á löngu þar til bygginga- og skipulagsfulltrúi Norðurþings gerði lítið úr áhyggjum jarðeðlisfræðingsins. Meiri líkur séu á að byggingar á Húsavík skemmist í öflugum jarðskjálfta, auk þess hafi PCC fullvissað hann um að tillit sé tekið til jarðskjálftahættu við hönnun á búnaði verksmiðjunnar.
Gott að heyra. Nú er um að ræða eitt virkasta jarðskjálftasvæði Íslands, og hugmyndir um uppbyggingu verksmiðjustarfsemi á Bakka eru ekki nýjar af nálinni. Þær hafa reyndar verið upp í áraraðir.
Ein pæling. Af hverju er verksmiðjustarfseminni ekki bara fundinn betri staður í sveitarfélaginu Norðurþingi, þar sem lífi og limum starfsfólks er ekki stefnt í hættu? Hvaða hagsmunir vega eiginlega þyngst?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.