Hinn ágæti héraðsfréttamiðill Skessuhorn birti án efa eina af stærstu fréttum gærdagsins. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, er þeirrar skoðunar að Íslendinga eigi að endurskoða hvalveiðistefnu sína, í ljósi þess að þjóðin sé litin hornauga í alþjóðasamfélaginu.
Telja má víst að ummæli ráðherrans hafi komið mörgum að óvörum, enda hafa stjórnvöld kappkostað í gegnum tíðina að verja hagsmuni Kristjáns Loftssonar og nokkurra sérvitra hrefnuveiðimanna með öllum mögulegum ráðum.
Ummæli utanríkisráðherrans eiga samt ekki að koma svo mikið á óvart. Gunnar Bragi hefur nefnilega vaxið í starfi að undanförnu, því hann hefur sýnt þess merki að nálgast verkið af meiri auðmýkt en áður. Þrátt fyrir eina vandræðilegustu framgöngu ráðherra á sögutímum í Evrópusambandsmálinu, þar sem hann reyndi að lauma þjóðinni úr aðildarviðræðum, nánast með einum tölvupóst, þótti Barber-shop ráðstefnan hans heppnast vel og þá hefur barátta hans fyrir kynjajafnrétti verið honum til sóma.
Nýjasta útspil ráðherrans einkennist af skynsemi frekar en hagsmunagæslu og rembingi. Að vera reynslulítill er engin skömm, er Gunnar Bragi að læra?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.