Danski fréttamiðillinn Berlingske Tidende greinir frá því að óprúttnir aðilar hafi hakkað sig inn á 73.000 öryggismyndavélar á heimsvísu, og nú sé hægt að horfa meðal annars inn á heimili fólks í gegnum myndavélarnar í beinni útsendingu á netinu í gegnum síðuna insecam.com. Flestar hökkuðu öryggismyndavélanna er að finna í Bandaríkjunum, samkvæmt vefsíðunni, eða rúmlega ellefu þúsund talsins.
Um er að ræða svokallaðar netöryggismyndavélar, sem eigendur þeirra geta skoðað myndir úr í gegnum internetið. Í umfjöllun danska fréttamiðilsins er fólk hvatt til þess að breyta um leyniorð til að varna því að ókunnugir geti gægst í leyfisleysi inn á heimili fólks, sumarbústaði eða vinnustaði í gegnum netið.
Berlingske Tidende greinir frá því að óprúttnir aðilar hafi hakkað sig inn á 599 öryggismyndavélar í Danmörku, en inn á áðurnefndri heimasíðu, má sjá glugga inn á fjórtán netöryggismyndavélar á Íslandi. Fæstar þeirra virka reyndar, og því má vera að eigendur þeirra hafi nú þegar brugðist við.
Þekkir þú þetta útsýni? Á heimasíðunni insecam.com er fullyrt að þessi mynd komi úr netöryggismyndavél á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt áðurnefndri umfjöllun Berlingske Tidende segjast forsvarsmenn insecam.com vilja sýna fram á öryggisgalla netöryggismyndavéla með uppátæki sínu. Fólk þurfi bara að breyta um lykilorð að myndavélum sínum til að detta út af síðunni. Þá einskorðist öryggisgallarnir ekki við eina tegund öryggismyndavéla.
"Margir vita ekki af þessum öryggisbresti, en þetta vandamál hefur farið hljótt undanfarin ár," skrifar ónafngreindur talsmaður insecam.com í tölvupósti til tæknisíðunnar Motherboard, sem heyrir undir fréttasíðuna Vice, sem fyrst greindi frá málinu. "Fram til þessa hafa fyrirtæki brugðist við þegar hakkarar hafa sýnt fram á öryggisgalla í tæknibúnaði, það hefur hins vegar ekki enn gerst varðandi netöryggismyndavélarnar."