Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa hækkað vexti á föstum óverðtryggðum íbúðalánum til þriggja og fimm ára undanfarna daga. Í frétt Kjarnans um hækkanirnar kom fram að hækkandi fjármagnskostnaður og óvissa um áhrif kjarnasamninga og losun fjármagnshafta væri helsta ástæðan þess að þeir gripu til þessarra aðgerða.
Það vekur hins vegar athygli að báðir bankarnir sem hafa tilkynnt um vaxtahækkanir eru að langstærstu leyti fjármagnaðir af innlánum íslenskra fyrirtækja og einstaklinga. Þannig eru 70 prósent skulda Íslandsbanka innstæður viðskiptavina og 66 prósent skulda Landsbankans. Varla er kostnaður vegna þeirra fjármögnunar að hækka mikið, enda íslenskir viðskiptavinir í höftum ekki með marga aðra möguleika til að ávaxta innlán sín.
Þess utan eru áhrif kjarasamninga og stuðningsaðgerða ríkisstjórnarinnar, sem vissulega eru líkleg til að valda verðbólgu, alls ekki komin fram og frumvarp um losun hafta verður ekki kynnt fyrir ríkisstjórn og þingheimi fyrr en í dag. Er þá hægt að réttlæta það að hækka vexti með þessum hætti, sem sannarlega hafa töluverð áhrif á lánamöguleika þeirra sem hyggja á íbúðakaup, þegar hækkunin byggir nánast einvörðu á væntingum?