Flestar spár greinenda gera ráð fyrir því að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga. Vöxturinn hefur verið með ólíkindum, en á skömmum tíma hefur ferðaþjónusta, með öllum sínum hliðar- og margfeldisáhrifum, orðið að mikilvægasta atvinnugeira þjóðarinnar.
Hún hefur skipt sköpum við að rétta hagkerfið af eftir hrun spilaborgar bankanna, dagana 7. til 9. október 2008. Nýjasta spáin, frá greiningardeild Arion banka, gerir ráð fyrir því að erlendir ferðamenn verði um tvær milljónir á árinu 2018, sem þýðir um tvöföldun á fjórum árum.
Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi. Vonandi fara þeir sem eru að fjárfesta í innviðum greinarinnar á einkamarkaðnum ekki of hratt um gleðinnar dyr. Hið opinbera hefur dregið lappirnar þegar kemur að stefnumörkun á sviði ferðaþjónustu, og ólíklegt er að innviðir, t.d. í vegakerfinu og í þjóðgörðum, verði styrktir nægilega vel úr þessu, nema þá of seint. Stjórnmálamenn bera ábyrgð á þessu kæruleysi, því ekki hefur vantað upplýsingar um stöðu mála.
Eitt af því sem ekki er rætt mikið um sem áhættuþátt fyrir ferðaþjónustuna, en gert er að umtalsefni í skýrslu Arion banka, er möguleg styrking krónunnar. Vitað er að fólk horfir í verðið þegar það er að ferðast, og gengi krónunnar gagnvart alþjóðlegum myntum er lykilatriði í því samhengi, þegar Ísland að marka sér stöðu í samkeppni við aðra áfangastaði. Ef krónan styrkist mikið, t.d. með auknu gjaldeyrisinnflæði eftir að áætlun um losun hafta hefur verið hrint í framkvæmd, gæti það fælt frá ferðamenn og kúvent stöðunni sem nú er verið að teikna upp. Vonandi verður þessi áhættuþáttur tekinn með í reikninginn í komandi uppbyggingarverkefnum í ferðaþjónustu.