Alls sóttu fjórtán einstaklingar um starf forstjóra Íbúðalánasjóðs; þrjár konur og ellefu karlar. Gert er ráð fyrir að ráðið verði í stöðuna fyrir lok mánaðarins, en Sigurður Erlingsson sagði starfi sínu lausu sem forstjóri sjóðsins í lok apríl síðastliðnum og lét samstundis af störfum. Hann gegndi starfinu frá árinu 2010.
Í tilkynningu til Kauphallar í apríl vegna forstjórabreytinganna sagði að nýr forstjóri muni fá það hlutverk að leiða þær breytingar sem kunna að verða á starfsemi sjóðsins við breytta skipan húsnæðismála. Sjóðurinn hefur tapað tugum milljarða frá efnahagshruni og umsvif hans á fasteignalánamarkaði dregist verulega saman. Stjórnvöld hafa ekki sagt hvert framtíðarhlutverk sjóðsins verður en bæði núverandi stjórnvöld og fyrri ríkisstjórn hafa boðað breytingar á starfsemi sjóðsins.
Að mati sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) er Íbúðalánasjóður ónýtur í núverandi mynd og telur AGS að stjórnvöld ættu að stöðva nýjar lánveitingar sjóðsins og láta hann einbeita sér að því að gera upp skuldir sínar áður en nýtt fyrirkomulag húsnæðismála er tekið upp.
Boðað frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um framtíðarmálefni Íbúðalánasjóðs hefur enn ekki litið dagsins ljós, en þess hefur verið beðið síðan skýrsla um framtíðarskipan húsnæðismála var kynnt í maí árið 2014.
Sem sagt, Íbúðalánasjóður er ónýtur og kostar ríkissjóð milljarða á ári og ekkert liggur fyrir um framtíð hans, hvort hann verði yfir höfuð áfram til eða lagður niður. Er bráðnauðsynlegt að ráða nýjan forstjóra yfir stofnuninni við þessar aðstæður? Maður spyr sig.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.