Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, gefur sér reglulega tíma til að blogga á Eyjunni. Um helgina skrifaði hún pistil um sparnað, sérstaklega húsnæðissparnað. Hún segist hafa átt vini sem fóru hægar í gegnum háskólanám til að þurfa ekki að taka námslán, bjuggu heima hjá foreldrum sínum lengur til að geta sparað fyrir húsnæði og tóku strætó í vinnuna. Hún vilji gjarnan læra af þessu fólki og því tali hún fyrir húsnæðissparnaði.
Þá segir Eygló að kostnaður við ökutæki séu um 73 þúsund krónur á mánuði og kostnaður vegna fjarskipta um 12 þúsund krónur á mánuði. Yfir fjögurra ára tímabil séu þetta fjórar milljónir króna, sem ættu að geta dugað fyrir útborgun í litla íbúð.
Það er gott og blessað að hvetja fólk til sparnaðar, og Íslendingar mættu vera talsvert duglegri við það. En það er brjálæðisleg einföldun hjá ráðherra húsnæðismála að halda því fram að með því að eiga ekki bíl og hætta að nota síma og tölvur (sem er enn óraunhæfari hugmynd en sú fyrri) geti ungt fólk eignast þak yfir höfuðið. Fyrir nú utan fjöldann sem á ekki bíl, getur ekki búið heima hjá foreldrum fram eftir öllum aldri, þarf að vera á leigumarkaði þar sem frumskógarlögmál virðast stundum gilda fremur öðru, og þarf að taka námslán og/eða vinna. Fullt af fólki sem bara getur ekki lagt fyrir, jafnvel þótt það sleppi því að fara á internetið. Hvað á þetta fólk að gera?