Hagfræðingarnir Dr. Ásgeir Jónsson og Dr. Hersir Sigurgeirsson segja í skýrslu sem birt var í gær að vilji ráðgjafa ríkisstjórnarinnar við að reyna að fara hina svokölluðu gjaldþrotaleið við uppgjör slitabúa föllnu bankanna, þar sem allar kröfur yrðu greiddar út í íslenskum krónum, hafi tafið haftaafnámsvinnu um rúmlega ár. Sú leið hafi loks verið dæmd úr leik með dómi Hæstaréttar hinn 10. nóvember 2014 í máli Kaupþings hf. gegn Aresbank S.A. Þar kom skýrt fram að þó að allar kröfur íslenskra þrotabúa væru reiknaðar í lögeyri landsins stæðu engar skyldur til þess að greiða þessar sömu kröfur út í krónum.
Að mati Ásgeirs og Hersis virðist dómur Hæstaréttar hafa komið fyrirtætlunum stjórnvalda í uppnám og „strax í kjölfarið virðast stjórnvöld hafa horfið til fyrri áforma um lausn vandans. Raunar liðu aðeins nokkrir dagar frá því að Hæstiréttur moldsetti gjaldþrotaleiðina að fregnir bárust af því að aftur væri verið að huga að þeirri leið er sett var fram í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá því í mars árið 2011.“
En hvaðan kom þessi hugmynd sem eytt var svona miklum tíma í að óþörfu?
Í frægu viðtali við Fréttablaðið þann 9. mars 2013 sagði þá verðandi forsætisráðherra landsins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, eftirfarandi um uppgjör slitabúa föllnu bankanna: „Í slíkum viðræðum þurfa menn bæði að hafa gulrót og kylfu. Það þarf að skapa hvata en menn þurfa líka að standa frammi fyrir því að ef þeir séu ekki tilbúnir til að spila með verði það þeim ekki til hagsbóta. Eins og lögin eru núna í stakk búin á að greiða úr þrotabúum íslenskra fyrirtækja í íslenskum krónum. Seðlabankinn gæti því í raun innkallað gjaldeyrinn, í krafti gjaldeyrishaftanna, og greitt út í íslenskum krónum sem menn sætu þá fastir með hér.“
Gjaldþrotaleiðin var því, samkvæmt þessu, hin fræga „kylfa" Sigmundar Davíðs. Hún virðist nú horfin.
Von er á frumvörpum um skref í átt að losun hafta í lok þessarar viku eða byrjun þeirrar næstu. Er forsætisráðherrann að fara inn í það ferli einungis vopnaður gulrót?