Nú eru hátt í þrjú þúsund heilbrigðisstarfsmenn í verkfalli á Íslandi, en fyrstu verkföllin í þeirra röðum brustu á fyrir 64 dögum, eða rúmum tveimur mánuðum. Ekkert miðar í kjaradeilunum, ekkert í kortunum, þrátt fyrir að samningafundirnir hjá ríkissáttasemjara telji tugi.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, gerir lítið annað en að yppta öxlum í sjónvarpsviðtölum þegar grafalvarleg staða á spítölum landsins er borin undir hann, og á meðan deilan er enn óleyst fá meðal annars krabbameinssjúklingar hvorki lyfjagjöf né niðurstöður úr blóðrannsóknum sem eru nauðsynlegar til greina hvort hinn banvæni sjúkdómur sé búinn að ná yfirhöndinni.
Í harðyrtu minnisblaði sem Landlæknir sendi ríkisstjórninni í gær segir hann að verkföllunum verði að ljúka tafarlaust ef ekki eigi illa að fara. Núverandi ástand sé óþolandi og það muni koma til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna til skamms tíma og lengri tíma litið. Stjórnvöld beri nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.
Í ljósi stöðunnar, þar sem allt virðist í einum allsherjar rembingshnút, sem hefur hvað alvarlegustu áhrifin á lasið fólk og aðra sem þurfa að leita á náðir heilbrigðiskerfisins, hefur þá Landlæknir ekki eitthvað til síns máls?