Kröfuhafar Glitnis og Landsbankans sendu frá sér erindi um tillögur þar sem þau samþykktu að mæta þeim stöðugleikaskilyrðum sem stjórnvöld settu fyrir nauðasamningsgerð þeirra nokkrum mínútum áður en aðgerðaráætlun um losun hafta var kynnt á fundi í Hörpu á mánudag. Kröfuhafar Kaupþings hafði sent erindi sama efnis frá sér daginn áður. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Því gafst einungis tími til að þýða erindið frá kröfuhöfum Kaupþings. Kjarninn greindi frá klukkan rúmlega 15 á mánudag, nokkru eftir að kynningarfundinum í Hörpu lauk, að framkvæmdahópur um losun hafta hefur staðfest að tillögur stærstu Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda falli innan þess ramma sem stýrihópur um losun hafta hafði samþykkt og mælir með því að þeir fái undanþáguheimild frá höftum til að ljúka nauðasamningum á grundvelli tillögu sinnar.
Ekkert farið yfir samþykktar tillögur kröfuhafa í kynningunni
Það vakti töluverða athygli að kynning stjórnvalda hafi fyrst og síðast snúist um álagningu stöðugleikaskatts og hvaða skilyrðum kröfuhafar yrðu að mæta til að hann yrði ekki lagður á, í ljósi þess að stærstu kröfuhafar allra slitabúanna höfðu sent stjórnvöldum yfirlýsingu um að þeir vildu ganga að stöðugleikaskilyrðunum. Það er einungis nefnt á einum stað í 88 blaðsíðna kynningu, á glæru 57. Engum tíma var varið í að útskýra í hverju rammatilboð kröfuhafanna, sem samþykkt hefur verið, felst.
Í Fréttablaðinu í dag segir Sigurður Hannesson, varaformaður framkvæmdahóps um losun hafta, að einhverjir geti sagt að fyrst bréf væru komin þá þyrfti ekki að fara með stöðugleikaskattinn fyrir þingið. "En ef það verður ekki gert þá held ég að málið gæti tafist verulega. Þá vantar aðhaldið."
Þar segir Sigurður einnig raunhæft að ætla að tekjur ríkisins vegna haftalosunar verði 500 til 700 milljarðar króna. En vegna þess að stöðugleikaskilyrðin eru háð þróun á virði eigna verði tíminn að leiða í ljós hversu mikið þetta verður. Verði upphæðin lægri séu það í sjálfu sér góðar fréttir vegna þess að það þýði að vandinn sé þá minni en áður var talið.