Undirliggjandi erlend staða þjóðarbúsins í lok fyrsta ársfjórðungs 2015 er metin neikvæð um 783 milljarða króna af Seðlabanka Íslands, sem birti í dag bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd og um erlenda stöðu þjóðarbúsins. Reynt er að leggja mat á þá stöðu sem mun birtast þegar innlendar og erlendar eignir innlánsstofnana í slitameðferð, það eru eignir gömlu bankanna, hafa verið seldar og andvirði þeirra verið ráðstafað til kröfuhafa.
Til samanburðar var undirliggjandi staða í lok fyrsta ársfjórðungs 2014 neikvæð um 880 milljarða króna, segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands. Staðan hefur því batnað um 97 milljarða króna, eða sem nemur 4,7 prósentum af vergri landsframleiðslu. Jákvæðar breytingar eru sagðar skýrast af aukningu á brúttó gjaldeyrisforða um tæpa 63 milljarða króna, sem skýrist að hluta af erlendum lántökum innlendra aðila og gengis- og virðisbreytingum á eignum og skuldum sem voru hagstæðar um rúman 71 milljarð króna í ársfjórðungnum.
Hrein staða við útlönd, það eru erlendar eignir að frátöldum erlendum skuldum, var neikvæð um 7.937 milljarða króna, eða sem nemur 387 prósent af vergri landsframleiðslu í lok 1. ársfjórðungs. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð er staðan jákvæð um 12 milljarða króna. „Talið er að slit innlánsstofnana í slitameðferð hafi neikvæð áhrif á hreinu erlendu stöðuna sem nemur 795 milljörðum króna eða tæplega 39% af vergri landsframleiðslu. Undirliggjandi hrein erlend staða miðað við reiknað uppgjör innlánsstofnana í slitameðferð og fyrirtækja sem unnið er að slitum á er því metin neikvæð um 783 milljarða króna eða 38% af vergri landsframleiðslu,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.