Heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis fyrir tíu milljarða króna á ári mun ein og sér ekki hafa sérstök áhrif til lækkunar á innlendum eignamörkuðum, að mati greiningaraðila. Á kynningarfundi um áætlun um losun gjaldeyrishafta í Hörpu í gær var greint frá áformum um að leyfa lífeyrissjóðum að fjárfesta fyrir tíu milljarða á ári erlendis til ársins 2020. Það jafngildir um fjórðungi af hreinu innstreymi þeirra á tímabilinu. Heimildin verður lögfest fyrir árslok. Heimildir einstaklinga til gjaldeyrisviðskipta, þar með talið fjárfestingar þeirra erlendis, verða jafnframt rýmkaðar á haustþingi.
Frá setningu gjaldeyrishaftanna hefur nokkuð verið fjallað um áhrif hafta á innlenda markaði og þann þrýsting sem höftin skapa á verð innlendra eigna, helst hlutabréf, skuldabréf og fasteignir.Til að mynda Lífeyrissjóðirnir eru í dag stærstu eigendur hlutabréfa í Kauphöllinni.
Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir rýmkun heimilda handa lífeyrissjóðunum hljóma hófstillt. Hún sé ekki af því tagi að draga að ráði úr eftirspurn þeirra eftir innlendum eignum enda einungis brot af innflæði fjármagns í sjóðina. Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, tekur í sama streng. Þessi heimild ein og sér ætti ekki að hafa veruleg áhrif á mörkuðum.
Jón Bjarki bendir ennfremur á að innlendur hlutabréfamarkaður sé vel studdur undirliggjandi stærðum og kennitölum úr rekstri skráðra fyrirtækja. Þá hafi skuldabréfamarkaður átt nokkuð erfitt uppdráttar að undanförnu og ekki séu merki um bólumyndun á honum. Velta megi fyrir sér áhrifum á fasteignamarkað, þar sem verð hefur farið hækkandi undanfarin misseri og stórir fjárfestasjóðir verið virkir kaupendur, en helstu ástæður fyrir hækkunum sé þó sú að lítið hefur verið byggt undanfarin ár og fjárhagsstaða heimila hafi að jafnaði batnað á margan hátt. Því séu ólíklegt að auknar heimildir einstaklinga, fyrirtækja og lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis hafi veruleg áhrif, þegar af þeim verður.