Nýherji hagnaðist um 137 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2014. Þetta kom fram í kynningu Finns Oddssonar, forstjóra Nýherja, á níu mánaða uppgjöri félagsins sem fram fór í dag.
Nýherji tapaði alls 1.608 milljónum króna á árinu 2013, að mestu vegna virðisrýrnunar á viðskiptavild upp á 1,2 milljarða króna. Því er um mikinn viðsnúning að ræða.
Í kynningunni kemur fram að langmesta aukningin á tekjum sé innan TM Software, dótturfyrirtækis Nýherja. Alls hafa tekjur TM Software aukist um þriðjung það sem af er ári og eru nú 1.189 milljónir króna. Um 44 prósent teknanna, rúmlega hálfur milljarður króna, er tilkominn vegna Tempo-vörulínunnar. Hún býður upp á heildarlausnir fyrir verkbókhald, verkefnastjórnun, auðlindastjórnun og viðskiptagreiningu, ásamt fleiru. Tempo lausninar eru hannaðar sem viðbætur við verkbeiðna- og þjónustukerfið JIRA frá ástralska hugbúnaðarfyrirtækinu Atlassian.
Tempo hefur vaxið gríðarlega hratt innan TM Software og samkvæmt kynningunnu hafa erlendar tekjur af Tempo vaxið um 86 prósent milli ára. Viðskiptavinir Tempo eru yfir fimm þúsund og má þar nefna stórfyrirtæki á borð við Dell, Samsung, Ebay, Amazon, Intel og Deutsche Bank.
Kjarninn fjallaði í maí um hinn mikla vöxt TM Software og Tempo í myndbandsumfjöllun sinni um frumkvöðlastarf og nýsköpun af ýmsu tagi í tengslum við Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn.