Fundað var með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi í utanríkisráðuneytinu í dag vegna stöðunnar sem komin er upp milli Íslands og Rússlands. Rússar hafa hug á að loka á viðskipti við Ísland, og útvíkka þannig innflutningsbann á matvælum til Rússlands frá Vesturlöndum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, en heildarutanríkisviðskipti við Rússland í fyrra námu ríflega 20 milljörðum króna. Þar af voru um 18 milljarðar vegna viðskipta með makríl, en um 47 prósent af öllum makríl sem veiddur var við Ísland í fyrra fór inn á Rússlandsmarkað.
Samkvæmt heimildum Kjarnans höfðu sjávarútvegsfyrirtæki fengið upplýsingar um að lokað yrði á viðskipi við Ísland, ekki síst vegna stuðnings Íslands við hertar pólitískar og efnahagslegar aðgerðir gegn Rússlandi, sem rekja má rekja til pólitískrar spennu og aðgerða Rússa í Úkraínu.
Ekki hefur náðst í Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra í dag, né Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra LÍÚ. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, sagðist í samtali við Kjarnann ekki hafa farið til fundar í dag, þar sem hann var staddur á Seyðisfirði. En sagðist hafa heyrt af áhyggjum sjávarútvegsfyrirtækja af því að Rússar væru að loka á viðskipti og útvíkka innflutningsbannið, með þeim afleiðingum að það hefði áhrif á viðskipti íslenskra fyrirtækja. Þetta hafði hann þó ekki fengið staðfest að væri raunin.
Hinn 15. október birti Evrópuráðið tilkynningu, um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu, stilltu sér upp með Evrópusambandsríkjum, með ákvörðun frá 23. júní, um hertar viðskiptaþvingangir gegn Rússum. Samkvæmt heimildum Kjarnans fór þetta illa í Rússa sem hafa hug á því að loka á viðskipti við þessi ríki, eða í það minnsta bregðast við með aðgerðum.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um þetta mál eftir því sem upplýsingar berast.