Það var hálfgerður sorgardagur í gær, þegar Alþingi samþykkti lög á verkföll BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Verkfallsrétturinn er enda næstum heilagur réttur stéttarfélaga til að knýja á um betri kjör til handa sínum félagsmönnum. Lagasetningin er hins vegar skiljanleg í ljósi þess að kjaraviðræður ríkisins við heilbrigðisstarfsmenn sína voru í óleysanlegum hnút, og kjaradeilan farin að bitna á því fólki sem síst skyldi.
Því skal þó til haga haldið að það var ríkið sem samdi við lækna um verulegar launahækkanir, eftir að læknar höfðu sömuleiðis haldið heilbrigðiskerfinu í gíslingu til að ná fram sínum kjarabótum. Læknasamningarnir leiddu til stöðunnar sem uppi er.
Með fullri virðingu fyrir læknum, þá eru engu að síður vísbendingar um að ríkið meti ekki aðra starfsmenn heilbrigðiskerfisins til jafns við þá. Óháð því hvort kröfur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins eru raunhæfar, því læknasamningarnir voru það ekki í efnahagslegu tilliti, þá ber ríkinu að leggja sig jafn mikið fram við að ná samningum við fleiri heilbrigðisstarfsmenn en bara lækna. Það er útilokað að sátt náist um að það sé gert mun betur við suma en aðra.
Á Íslandi starfar framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk á heimsvísu, sem er eftirsótt fyrir utan landsteinana. Heilbrigðiskerfið á Íslandi snýst ekki bara um lækna, því þeir gætu lítið gert einir og sér. Heilbrigðiskerfið er eins og gangverk í klukku, þar sem hvert tannhjól skiptir sköpum svo að kerfið virki eins og það á að virka.
Hvað gerist nú skal ósagt látið, en sorglegasta niðurstaðan væri auðvitað sú ef við missum mikið af menntuðu fólki úr landi. Því miður eru dæmi þess, að slíkur landflótti sé nú þegar hafinn.