Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hafið rannsókn á fjármögnun Seðlabanka Íslands á Íslandsbanka og Arion banka. Stofnunin rannsakar hvort mögulega hafi verið um að ræða ólögmæta ríkisaðstoð við fjármálafyrirtækin tvö þegar Seðlabankinn breytti skammtímafjármögnun sem veitt hafði verið fyrirrennurum þeirra, Glitni og Arion banka, í langtímafjármögnun. Til skoðunar verður hvort markaðskjör hafi verið á þeirri fjármögnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar í dag.
Skammtímafjármögnun breytt í langtímafjármögnun
Eftir neyðarlagasetninguna voru eignir og skuldir fluttar með handafli yfir til nýju bankanna þriggja. Á meðal þeirra skulda sem fluttar voru yfir með þeim hætti voru lánasamningar við Seðlabanka Íslands. Þeir samningar voru til skamms tíma og mikil veð stóðu á bakvið þá. Ljóst var að nýju bankarnir gátu ekki greitt lánin á þeim gjalddögum sem til stóð án þess að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar á lausafjárstöðu þeirra. Þess vegna voru lán sem Seðlabankinn hafði veitt Glitni og Kaupþingi, en færð höfðu verið yfir til Íslandsbanka og Arion banka þegar þeir bankar voru búnir til á grunni hinna, endurskipulögð í september og nóvember 2009. Þar var þeim breytt í langtímalán.
Ólögmæt ríkisaðstoð eða hámörkun eigna?
Seðlabankinn heldur því fram, samkvæmt frétt á heimasíðu ESA, að þetta hafi verið gert til að hann gæti hámarkað endurheimtir sínar. Þar með hafi Seðlabankinn hagað sér eins og einkafjárfestir sem ætti kröfu á slitabú. ESA hefur hins vegar efasemdir um að þau kjör sem samið var um séu í samræmi við markaðskjör á þeim tíma. Ef þau hafi ekki verið það þá sé um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða sem sé í andstöðu við EES-samninginn. Ekki er tilgreint í frétt ESA hvort það séu vaxtakjörin sem buðust eða lengd nýju lánanna sem eftirlitsstofnunin telur að geti mögulega verið ólögmætt.
Í frétt á heimasíðu ESA er tekið fram að í ákvörðuninni um að opna formlega rannsókn á fjármögnun bankanna tveggja sé ekki falin neins konar afstaða til endanlegrar niðurstöðu málsins. ESA mun nú kalla eftir frekari athugasemdum frá íslenskum stjórnvöldum og öðrum aðilum sem hafa áhuga á að koma á framfæri athugasemdum um málið.