Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, mun ekki skoða ráðstafanir stjórnvalda vegna losunar fjármagnshafta frekar. Til skoðunar var hvort það fælist ríkisaðstoð í því að heimila þrotabúum frádrátt frá stöðugleikaskatti og framlag í samræmi við stöðugleikaskilyrðin.
Stjórnvöld upplýstu ESA um það fyrr á þessu ári að í áformum um losun fjármagnshafta væru heimildir til frádráttar frá stöðugleikaskatti og áætlanir væru um viðtöku stöðuleikaframlags. Stjórnvöld spurðu ESA hvort í þessum ráðstöfunum gæti falist óbein ríkisaðstoð sem færi gegn EES-samningnum.
Íslensk stjórnvöld héldu því fram að af því að þessar heimildir væru hluti af verndarráðstöfunum „vegna röskunar á íslenskum fjármagnsmarkaði og erfiðleika tengdum greiðslujöfnuði“ féllu þær ekki undir eftirlit ESA. ESA er sammála því að málið falli ekki undir valdsvið stofnunarinnar.
Þetta segja stjórnvöld vega mikilvægan áfanga í áætlun stjórnvalda um losun haftanna.
Gert er ráð fyrir því í áætlun stjórnvalda að hægt sé að fá frádrátt frá skatti með því að ráðast í langtímafjárfestingar. Annars vegar með því að ráðast í frumfjárfestingar í skuldabréfum sem eru útgefin af innlendum bönkum eða sparisjóðum, og hins vegar frumfjárfestingar í víkjandi lánum sem eru veitt til banka eða sparisjóða. Þannig á að vera mögulegt að binda fjármuni í erlendum gjaldeyri til lengri tíma í fjárfestingum í erlendri mynt. Það er talið ein af lykilforsendunum fyrir því að vel takist til við losun fjármagnshafta að innlendir aðilar hafi greiðan aðgang að alþjóðlegri fjármögnun á eðlilegum kjörum og að fjármálastöðugleiki sé tryggður.