ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur ákveðið að stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt fyrirmælum um að stöðva og endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
Málið snýst um ívilnunarsamninga sem íslenska ríkið gerði við fimm fyrirtæki: Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið, Thorsil og GMR endurvinnsluna. ESA komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að þessir samningar fælu allir í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Stjórnvöldum á Íslandi var fyrirskipað að stöðva allar frekari greiðslur ríkisaðstoðar á grundvelli þessara fimm samninga og sjá til þess að öll sú aðstoð sem veitt hafði verið fram að því yrði endurgreidd innan fjögurra mánaða. Það var fyrir 9. febrúar á þessu ári. Þá var íslenskum stjórnvöldum gert að tilkynna eftirlitsstofnuninni fyrir 9. desember í fyrra hver heildarfjárhæð ólögmætrar ríkisaðstoðar hefði verið veitt og tilkynna hvernig ríkið hygðist endurheimta þessa fjárhæð.
„Nærri ári eftir ákvörðun ESA hafa íslensk stjórnvöld enn ekki uppfyllt neina af þeim þremur kvöðum sem mælt var fyrir um í umræddri ákvörðun," segir ESA í tilkynningu í dag. Af þessum sökum verði að höfða mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. „Tafir á endurheimtu ólögmætrar ríkisaðstoðar viðhalda þeirri samkeppnisröskun sem aðstoðin hefur í för með sér. Það er óviðunandi að nærri ári eftir að endanleg ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir hefur Ísland enn ekki stöðvað eða endurheimt ólögmæta ríkisaðstoð,“ segir Sven Erik Svedman, forseti ESA, í tilkynningunni.
ESA samþykkti styrkjakerfi til nýfjárfestinga sem íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt til að efla atvinnuþróun á landsbyggðinni árið 2010. Kerfið byggðist á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, en lögin heimiluðu ríkisstyrki einkum í formi skattaívilnana. Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir samninga við þessi fimm fyrirtæki á grundvelli þessa á árunum 2010 til 2012. Lögin féllu svo úr gildi árið 2013.
Árið 2013 ákvað ESA að skoða formlega hvort ríkisaðstoðin sem Ísland veitti þessum fyrirtækjum hefði verið í samræmi við EES-samninginn, enda höfðu verið gerðar breytingar á styrkjakerfinu, og komst að því í október í fyrra að svo væru ekki.