Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur greint frá því að evrópska lögregluskrifstofan Europol hafi gefið út viðvörun vegna dreifingar á vímuefninu PMMA. Efnið þykir keimlíkt MDMA, betur þekkt sem e-pilla, alsæla eða molly, en á að vera enn hættulegra. Samkvæmt stöðufærslu lögreglunnar á facebook koma vímuáhrif hins PMMA hægt fram og því séu aukin líkindi á ofskammti. „Neytendur sem eru vanir áhrifum MDMA gætu talið að efnið væri veikt og tekið inn meira af efninu til að auka áhrifin en lent í því að taka inn ofskammt. Þá hafa mælingar leitt í ljós að hlutfall PMMA í einni töflu getur verið þrefalt yfir hættumörkum og verið lífshættulegt".
Eitt dauðsfall á Íslandi verið rakið til neyslu PMMA
Eitt dauðsfall á Íslandi hefur verið rakið til notkunar á PMMA. Það var fyrir þremur árum síðan. Lögreglan segir að eitranir sökum þess hafi færst í vöxt að undanförnu i Evrópu og að síðustu vikur hafi fólk dáið eftir notkun efnisins í Svíþjóð og Bretlandi. Að sögn lögreglunnar veldur efnið hækkun á líkamshita, heilabólgu, blóðrásartruflunum, eyðileggingu á vöðva- og lifrarfrumum, og í alvarlegustu tilfellum dregið neytandann til dauða.
PMMA er í pilluformi og í stöðuuppfærslu lögreglunnar á facebook segir að pillurnar séu oft með súperman merki, þótt það sé ekki einhlítt. „Lögreglan beinir því til allra að vera vakandi fyrir þessu hættulega efni og að vekja athygli á því meðal þeirra sem það telur þörf á. Unglingar eru í sérstökum áhættuhóp og því beinum við því til forráðamanna að eiga umræðu um slíkar hættur við börn sín."
Mikið í umræðunni sumarið 2011
Mikil umræða var um PMMA hérlendis árið 2011 eftir að kona um tvítugt fannst látin í íbúð í Reykjavík eftir að hafa tekið inn banvæna blöndu af amfetamíni og PMMA. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greip til umfangsmikilla aðgerða í kjölfarið til að stemma stigu við frekari dreifingu efnisins hérlendis, en það hafði þá fundist víða á meðal fíkniefnaneytenda. Ári síðar var haft eftir Karli Steinari Valssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að efnið hefði ekki sést á götum Reykjavíkur frá því sumarið 2011. Nú virðist lögeglan hins vegar hafa af því áhyggjur að efnið sé komið aftur til landsins.