Eva Joly, fyrrum ráðgjafi sérstaks saksóknara, segist afar stolt yfir því að Ísland sé eina landið sem hafi dregið "bankstera" til ábyrgðar og látið dæma þá. Hún er ánægð með dóminn í Al-Thani málinu og að framganga Íslendinga sé fordæmi fyrir aðrar þjóðir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir að í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi verið lagðar gríðarháar sektir á banka en það látið ógert að rannsaka hverjir báru persónulega ábyrgð. "Al Thani-málið er dæmigert fyrir framgöngu banka... Það er athyglisvert að forystumenn Kaupþings skyldu segja umheiminum að Al Thani hefði áhuga á að kaupa hlut í bankanum. Við vitum nú að það var ekki satt[...]Ég hefði viljað sjá sambærilega rannsókn á bresku bönkunum. Það má til dæmis draga líkindi með þessu máli og framgöngu Barclays-banka".
Niðurskurður þýðir að stjórnvöld standi með bankamönnum
Í blaðinu er Joly einnig spurð út í þau ummæli Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, um að fjárþörf sé að hamla lokaúrvinnslu mála sem það rannsakar í tengslum við hrunið. Hún svarar: "Ef stjórnvöld skera á framlögin, þrátt fyrir góðan árangur, þýðir það að þau vilja taka sér stöðu með bankamönnum. Ég hvet stjórnvöld til að auka framlögin".
Joly er mjög umdeild, sérstaklega á meðal þeirra manna sem grunaðir hafa verið um glæpi í tengslum við hrunið. Sigurður Einarsson, sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Al-Thani málinu, kallaði hana til að mynda "ógæfukonu" í viðtali við Vísi í gær. Þar sagði Sigurður: "Undanfarin sex ár er búið að æsa upp einhverja stemmningu, fyrst náttúrulega af fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra og þessari ógæfukonu frönsku sem sótt var til landsins.".