Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og rannsóknardómari, segir að sá tími sem tekið hefur að leiða hrunmál til lykta á Íslandi séu á allan mælikvarða góður árangur. Rannsóknir hafi byrjað árið 2009 og þegar sé komin niðurstaða í stóru máli, sem árum síðar, í Hæstarétti. Elf-málið, sem Joly rannsakaði í Frakklandi, tók níu ár og annað stórt mál, Trans Ocean-málið í Noregi, tók sjö ár. Um 30 hrunmál séu auk þess á leiðinni og ef stjórnvöld telji að það sé nauðsynlegt að fá niðurstöðu í þau mál verði þau að styðja áfram við embætti sérstaks saksóknara. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali hennar við Kastljós í kvöld.
Sönnunarbyrðin á ekki að vera erfið
Joly var með miklar yfirlýsingar um það í viðtölum skömmu eftir hrun að rannsóknir myndu skila peningum til baka til samfélagsins. Var talað um tugi ef ekki hundruði milljarða króna í því samhengi.
Í Kastljósi sagði Joly að það væri nauðsynlegt að hafa það í huga að búið sé að frysta töluvert fjármagn. Það að koma málum á borð við Al Thani málið í gegnum dóm og fá niðurstöðu í þau sé aðal atriðið.
Hún segist ekki vera sammála þeim sem segja að sönnunarbyrði í skaðabótamáli vegna Al Thani málsins ætti að vera svo erfið. Hluthöfum Kaupþings ætti að bjóðast að ráðast í hópmálsóknir með litlum tilkostnaði fyrir hvern og einn.
Ísland fær HSBC gögnin
Joly ræddi líka afhendingu gagna sem sýna fram á skattaundanskot til stjórnvalda. Hún sagði Herve Falciani, manninn sem stal gögnum um skattsvik úr útibúi HSBC bankans í Sviss, hafa samþykkt í samtali við hana að láta Íslendinga hafa þau gögn sem snúa að íslenskum aðilum. HSBC bankinn aðstoðaði alls sex aðila tengda Íslandi við að koma um 9,5 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 1,3 milljarða íslenskra króna, undan skatti. Joly er þeirrar skoðunar að það eigi að nota gögnin frá Falciani til að sækja fjármuni þeirra Íslendinga sem stungu þeim undan skatti með þessum hætti.
Joly sagði að HSBC málið væri lýsandi fyrir það kerfi sem hafi verið við lýði. Efnað fólk hafi getað falið um 180 milljarða dala til að komast undan því að greiða til samneyslu þeirra landa sem það tilheyrir. Í HSBC hafi verið peningar hryðjuverkamanna, auður af sölu blóðdemanta og önnur auðsöfnun sem þyki vafasöm í besta falli.
HSBC bankinn aðstoðaði alls sex aðila tengda Íslandi við að koma um 9,5 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 1,3 milljarða íslenskra króna, undan skatti.
Íslendingar eiga rétt á skatttekjum Alcoa
Þóra Arnórsdóttir, sem tók viðtalið við Joly í Kastljósi í kvöld, sagði að allt líti út fyrir að Ísland sé skjól fyrir þá sem vilja sér milliverðlagningarregluverk. Það geri til dæmis fyrirtækjum á borð við Alcoa, sem á og rekur álver á Reyðarfirði, kleift að flytja frá Íslandi hagnað með himinháum lánveitingum frá skúffufélögum í eigu móðurfélags Alcoa sem eru skráð í Lúxemborg.
Alcoa móðurfélagið hefur ítrekað staðhæft að starfsemi þess á Íslandi sé sá hluti af starfsemi hennar sem skili því mestum hagnaði. Samt sem áður er enginn hagnaður sjáanlegur í rekstri dótturfélagsins á Íslandi, heldur einungis botnlaust tap, sem gerir það að verkum að engir skattar séu greiddir hérlendis.
Þóra spurði Joly hvernig ætti að takast á við svona stór mál. Hún svaraði því til að það væri mjög mikilvægt að gera það. Nýverið hafi hún tekið við stjórn nefndar á Evrópuþinginu sem fjalli um hvernig sérsamningar eins og Lúxemborg hefur verið að bjóða upp á. Þeir séu að skaða Ísland og önnur Evrópulönd. Joly sagðist sérstaklega tilbúin að taka mál Alcoa upp í nefndinni þar sem Íslands sé fórnarlamb sérsamninga sem geri fyrirtækjum kleift að flytja hagnað með vöxtum til Lúxemborgar.
Það sé fáranlegt að Íslendingar þurfi að sæta því að hagnaður sem verði til hérlendis sé fluttur til Lúxemborgar, þar sem búið sé að semja við þarlend stjórnvöld um að greiða agnarlágar upphæðir í skatt, þó Lúxemborg eigi enga heimtingu á þeim skatttekjum og taka því lítið af þeim.