Eygló Harðadóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og ritari Framsóknarflokksins, segir skipan Gústafs Níelssonar sem varmanns í Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sé óásættanleg. Ítrekaðar yfirlýsingar hans gangi þvert gegn gildum Framsóknarflokksins og viðhorf hans endurspegli allt annað en stefnu flokksins um almenn mannréttindi, réttindi samkynhneigðra, innflytjenda og ýmissa minnihlutahópa". Hún vill að borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallavina í Reykjavík afturkalli skipan Gústafs hið fyrsta. Þetta kemur fram í nýrri stöðuuppfærslu Eygloar á Facebook.
Moskuandstæðingur og flokksbundinn sjálfstæðismaður
Framsókn og flugvallarvinir skipuðu í gær Gústaf Níelsson, sagnfræðing og yfirlýstan andstæðing byggingar mosku í Reykjavík, sem varamann í mannréttindaráð borgarinnar.Þetta kom fram á Vísi.is. Þar var haft eftir Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, að allskonar raddir eigi að hljóma í mannréttindaráði borgarinnar.
Gústaf, sem er bróðir Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hann er flokksbundinn þeim flokki og fyrrverandi framkvæmdastjóri þingflokks hans.
Samkvæmt frétt Vísis hefur Gústaf sætt „ harðri gagnrýni fyrir ummæli sín í garð múslíma en á síðasta ári lagði hann til að Ísland bannaði hin íslömsku trúarbrögð og setti þannig fordæmi fyrir alla Evrópu. Í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í maí síðastliðnum sagðist hann telja mikilvægt að standa vörð um kristin gildi Íslendinga. Þá lýsti hann áhyggjum af því að reist yrði moska í Reykjavík“.
Sprengdu upp sveitarstjórnarkosningarar
Átta dögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 var haft eftir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku
réttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Í kjölfarið var lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn á Facebook síðu sem bar nafnið „Mótmælum mosku á Íslandi“. Fylgi flokksins jókst mikið þessa síðustu daga fyrir kosningarnar og flokkurinn fór úr því að mælast með án borgarfulltrúa í að ná tveimur slíkum inn í borgarstjórn.
Höskuldur sagði viðbrögðin hafa mátt vera sterkari
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í þættinumVikulokunum á Rás 1 um liðna helgi að viðbrögð flokks hans við mosku-ummælum Sveinbjargar Birnu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar hefðu mátt vera sterkari. Eftir á að hyggja hefði flokkurinn átt að bregðast fljótar og ákveðnar við. Hann væri hins vegar þeirrar skoðunar að „Framsóknarflokkurinn muni berjast gegn öllum hugmyndum um mismunun“.