Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hvetur almenning til þess að hjálpa flóttamönnum sem hingað koma. Hún sagðist vilja taka á móti fleiri flóttamönnum. Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að taka á móti 50 flóttamönnum, en ákvörðun um að taka á móti fleirum hefur ekki verið tekin.
Eygló ræddi þessi mál í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Aðkallandi vandi flóttafólks í milljónatali sem nú flýr stríðshrjáð svæði meðal annars í Sýrlandi, Írak og Afganistan hefur leitt til þess að Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur beðið þjóðir heims um að leggja miklu meira af mörkum til þess að hjálpa fólkinu, en að undanförnu hefur straumur flóttafólks til Evrópu þyngst verulega.
„Til þess að þetta geti gengið vel eftir þá þurfum við hjálp. Það er fólk á Íslandi núna sem hefur fengið stöðu flóttafólks og þarf hjálp. Ég hvet fólk til að hafa samband við velferðarráðuneytið og Rauða krossinn og spyrja hvað það geti gert til þess að hjálpa. Fólk þarf að fá vinnu, húsnæði, föt og til dæmis aðstoð við að læra á hvernig bankakerfið virkar,“ sagði Eygló.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagðist í gær vera hlynntur því að leggja fram stærri hjálparhönd til flóttamanna, vegna hins fordæmalausa vanda sem milljónir manna væru í vegna flótta frá átakasvæðum.
Mikill þrýstingur er nú á stjórnvöld um að gera meira fyrir flóttamenn en að taka einungis á móti 50 manns, og hefur meðal annars verið sett upp Facebook síða þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að taka á móti fimm þúsund flóttamönnum, og hafa 7.300 manns skráð sig á síðuna með like hnapp á skömmum tíma.
Áður en flóttafólkið kemur að gaddavírsgirðingunum Evrópu hefur ferðalag þeirra frá Sýrlandi verið svipað og þessara vina.Posted by Við skorum á stjórnvöld að taka á móti 5000 flóttamönnum on Friday, August 28, 2015