Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, gagnrýnir þá sem hafa gagnrýnt frumvarp hennar um húsnæðisbætur í nýjum pistli á heimasíðu sinni.
Hún segir að þær fregnir að fleiri eigi von á húsnæðisstuðningi, með tilkomu húsnæðisbótakerfisins, hafi orðið tilefni leiðs misskilnings. „Spurt hefur verið hvort hygla eigi tekjuháum sérstaklega með þessum breytingum. Vissulega mun jafnari réttur til húsnæðisbóta styrkja öll heimili, ekki síst millitekjufólk á leigumarkaði. Tekjutengingar munu hins vegar, líkt og ávallt þegar við tölum um slík jöfnunartæki, tryggja að þeir sem hafa minnst fá hlutfallslega mestan stuðning,“ skrifar Eygló.
Í kjölfarið biður hún þá sem hafi gripið þennan „misskilning á lofti“ að velta því fyrir sér hvaðan sú gagnrýni kunni að vera komin. „Kann að vera að hún eigi heimilisfesti hjá þeim sem vilja helst engan opinberan stuðning til húsnæðismála? Hjá þeim sem vilja að einkaaðilar geti einir gert út á erfiða stöðu heimilanna að þessu leyti? Er hún að koma frá þeim sem vilja alls ekki sjá hækkun húsnæðisbóta verða að veruleika?“
Fjármálaráðuneytið helsti gagnrýnandinn
Helsta gagnrýnin sem fram hefur komið á frumvarp Eyglóar er sú gagnrýni sem skrifstofa opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu setti fram í umsögn sinni um frumvarpið.
Í umsögn sinni sagði fjármálaráðuneytið meðal annars að samkvæmt greiningum þess myndi niðurgreiðsla húsaleigu verða hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimilisins eru hærri í nýja kerfinu. Það sé í andstöðu við yfirlýst markmið frumvarpsins, sem er auk annars að auka stuðning við efnaminni einstaklinga og fjölskyldur.
Þá segir ráðuneytið að aukinn ríkisstuðningur við leigjendur muni að öllum líkindum leiða til hækkunar á leiguverði, sem kynni að skila meiri ábata fyrir leigusala en fyrir leigjendur, auk þess sem sveitarfélög kunni að draga úr sínum sérstöku húsaleigubótum. Útgjöld ríkisins muni mögulega aukast um allt að tvo milljarða á ári og ekki hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum eða ríkisfjármálaáætlun. Auk þess mun fyrirkomulagið samkvæmt breyttu kerfi, að húsnæðisbætur fari til ríkisins en sérstakar húsaleigubætur verði eftir hjá sveitarfélögum, flækja ferlið og auka rekstrarkostnað. Þá muni breytingarnar ekki koma öryrkjum og öldruðum eins vel og þeim sem eru í námi eða vinnu.
Var hluti af sátt á vinnumarkaði
Í Morgunblaðinu í morgun kom fram að ekki sé víðtækur stuðningur við frumvarpið innan Sjálfstæðisflokksins, og raunar ekki heldur við annað boðað frumvarp Eyglóar um félagslegt húsnæðiskerfi. Frumvörpin þurfi að taka verulegum breytingum svo að sjálfstæðismenn styðji þau.
Eygló bendir á í samtali við blaðið að þessi frumvörp hafi verið hluti af aðgerðum sem ríkisstjórnin lofaði í tengslum við gerð kjarasamninga. „Aðilar vinnumarkaðarins líta svo á að þessar breytingar á húsnæðiskerfinu séu hluti af samkomulagi þeirra og forsenda fyrir gerð kjarasamninga. Ég hef ekki heyrt neitt annað frá forystu Sjálfstæðisflokksins, en að menn hafi í hyggju að standa við það, enda stóð öll ríkisstjórnin að þessari yfirlýsingu.“