Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist ekki hafa fallið frá áformum sínum um að leggja fram frumvarp sitt um stofnstyrki til félagslegra leiguíbúða. Þetta segir hún í frétt á vef velferðarráðuneytisins. Hún segir að fréttir fjölmiðla um að frumvarpið hafi verið dregið til baka eigi ekki við rök að styðjast.
Fjármálaráðuneytið greindi hins vegar frá því í svari við fyrirspurn Kjarnans í dag að velferðarráðuneytið hafi fallið frá því undir lok apríl að leggja fram frumvarpið í þáverandi mynd. Velferðaráðuneytið hafi síðan þá haft til skoðunar að leggja fram annað frumvarp „með talsvert breyttri útfærslu,“ eins og sagði í svarinu. Fjármálaráðuneytið sagði hins vegar að það megi „telja ósennilegt úr því sem komið er að lokið verði við útfærslu á nýju frumvarpi um þennan málaflokk ásamt umsögn um fjárhagsáhrif til framlagningar á vorþingi.“
Það er því ekki samhljómur um það meðal ráðuneyta hver staða málsins er. Í fréttinni á vef velferðarráðuneytisins segir Eygló að ekki sé hægt að segja fyrir hvort breytingar verði gerðar á frumvarpinu en það muni skýrast á næstunni. Kjarninn hefur óskað eftir viðtali við Eygló Harðardóttur.
Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru fimm og hálfur þingfundadagur eftir af þessu þingi, auk eldhúsdags.
Vakti hörð viðbrögð á þingi
Frétt Kjarnans um svör fjármálaráðuneytisins var gerð að umtalsefni á Alþingi í dag, þegar verið var að ræða rammaáætlun. Eins og greint hefur verið frá hafa stjórnarandstöðuþingmenn lýst furðu sinni á því að verið væri að ræða rammaáætlun þriðja daginn í röð, í stað þess að ræða um kjaramál og einhver þeirra stóru frumvarpa sem ríkisstjórnin hefur boðað að eigi að koma fram á þessu þingi.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist velta því fyrir sér í kjölfar frétta af frumvarpi Eyglóar að verið væri að ræða rammaáætlun „til þess að breiða yfir það að menn eru orðnir getu- og hugmyndalausir þegar kemur að því með hvaða hætti menn eiga að nálgast þessi erfiðu mál á vinnumarkaði.“ Undir þetta tóku meðal annars þær Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Svandís Svavarsdóttir þingmenn VG. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, lýsti furðu sinni á því að búið væri að draga til baka frumvarpið án þess að ræða við nefndina. „Mér finnst þetta fullkomin vanvirðing við velferðarnefnd og þingmenn og ætlast til þess að forseti fari yfir þessi mál“ með félagsmálaráðherra.