Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir svörum um það hvernig er staðið að samskiptasíðu undir nafni Reykjavíkurborgar á Facebook. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér rétt í þessu. Ástæðan er sú að Facebook-síða Reykjavíkur reifst við Björn Jón Bragason, fulltrúa Sjálfstæðisflokks í hverfisráði Laugardals og fjölmenningarráði og varamann í velferðarráði, og gerði honum upp skoðanir. Ástæðan var sú að Björn Jón benti á í athugasemdakerfi á Facebook-síðu borgarinnar að gatnakerfi hennar væri hrunið „vegna viðhaldsleysis vinstrimanna síðustu ára sem hefðu verið uppteknir við að eyða peningum almennnings í gæluverkefni.“
Reykjavíkurborg svaraði: „Þetta er ekki rétt hjá Birni Jóni Bragasyni sem gengur hér pólitískra erinda D-listans á síðunni. Hann er maðurinn sem vill engar sumargötur“.
Skömmu síðar gaf Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, sig fram sem þann sem skrifaði færsluna í nafni borgarinna og biðst afsökunar á athæfinu. Hann sagðist hafa ritað færsluna í flýti.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja hins vegar skýrari svör um hvernig staðið sé að samskiptasíðunni. Í tilkynningu frá þeim segir: „ Spurningin kemur til vegna þess að fulltrúi af lista Sjálfstæðisflokksins setti inn gagnrýni á síðuna sem var svarað með skætingi og honum jafnvel gerðar upp skoðanir í skjóli nafnleysis þrátt fyrir að hér sé um einhvers konar samskiptasíðu Reykjavíkurborgar að ræða. Óskað er eftir upplýsingum um í umboði hvers þessi vinna er unnin innan borgarinnar og hvaða starfsmenn borgarinnar sinna framkvæmd hennar. Þar sem þetta er undir nafni Reykjavíkurborgar er þarna um opinbera rödd borgarinnar að ræða og þar af leiðandi undarleg ásýnd á það hvernig samtal borgaryfirvöld vilja hafa við íbúa sína“.