Síðasta verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem dómsmálaráðherra var að setja nýja reglugerð um lögregluumdæmi lögreglustjóra, þar sem sveitarfélagið Hornafjörður telst nú til umdæmis lögreglustjórans á Austurlandi. Með ákvörðun sinni færði þáverandi dómsmálaráðherra lögregluna á Höfn úr Suðurkjördæmi yfir í Norðausturkjördæmi, sem vill svo til að er hans kjördæmi.
Lögregluyfirvöldum og sveitarstjórnarmönnum barst tilkynning um reglugerðina í tölvupósti klukkan rétt rúmlega eitt í gær, en þá var nýhafinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum þar sem Ólöf Nordal tók formlega við sem nýr innanríkisráðherra. Samhliða því færðust dómsmálin frá forsætisráðuneytinu aftur yfir í innanríkisráðuneytið.
„Forkastanleg vinnubrögð“
Sveitarstjórnarmenn á Hornafirði eru æfir vegna reglugerðarinnar, sem Sigmundur Davíð setti á lokametrunum sem dómsmálaráðherra, en Kjarninn hefur undir höndum harðyrt bréf sem Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri á Hornafirði sendi á þingmenn kjördæmisins í gær sem og nýskipaðan dómsmálaráðherra.
Í bréfinu segir: „Nú í dag setur dómsmálaráðherra reglugerð sem gengur þvert á það sem búið er að tala um undanfarnar vikur og algerlega án nokkurs samráðs við sveitarfélagið eða SASS (Samtök sunnlenskra sveitarfélaga). Að mínu mati eru þetta forkastanleg vinnubrögð og finnst mér að svona ákvarðanir eigi ekki að eiga sér stað á árinu 2014.“
Björn Ingi segir í bréfinu að embætti lögreglustjóra á Höfn hafi verið flutt á Eskifjörð árið 2007, án nokkurs samráðs við sveitarfélagið. Svo hafi innanríkisráðuneytið óskað eftir skoðun sveitarfélagsins á tilhögun lögregluumdæmisins, sem fram komi í bókun bæjarráðs frá því í ágúst. Þar tekur bæjarráð Hornafjarðar undir sjónarmið sem fram komu á fundi SASS, að hagsmunum sveitarfélagsins verði best borgið til lengri tíma með því að skipan lögreglumála fylgi kjördæmismörkum.
Þá segir í bréfinu að skoðunum sveitarfélagsins hafi verið komið á framfæri við starfsmann innanríkisráðuneytisins á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri, þar sem sveitarfélagið hafi verið fullvissað um að hlustað yrði á afstöðu þess með handsali.
Samstarf við lögreglustjóra Suðurlands komið af stað
„Það næsta sem við fréttum er að það sé farið að vinna eftir því að við fylgjum Suðurlandi. Nýr lögreglustjóri Suðurlands hefur komið hingað og hitt starfsmenn lögregluumdæmisins hér á Höfn og í gangi er skipulagsvinna þessu tengd. Ég átti góðan fund með lögreglustjóra Suðurlands og yfirlögregluþjóni þar sem sú vinna sem framundan er var rædd. Í síðustu viku fékk ég fundarboð frá lögreglustjóra Suðurlands um að koma til fundar við hann í næstu viku þar sem hann ætlaði að hitta alla framkvæmdarstjóra sveitarfélaga í sínu umdæmi.“
Að lokum skrifar Björn Ingi bæjarstjóri á Hornafirði: „Þess vegna spyr ég HVAÐ ER AÐ GERAST HJÁ YKKUR?! Ég óska eftir því að þið beitið ykkur í því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð og að unnið verð áfram í þá átt sem hér hefur verið lýst.“