Tap Íslandspósts, sem er 100 prósent í eigu íslenska ríkisins, nam 43 milljónum í fyrra, en árið 2013 nam það 119 milljónum. Rekstrartekjur námu 7,3 milljörðum króna sem er 7,2 prósent aukning miðað við árið á undan. Rekstrargjöld námu 6,8 milljörðum og var EBITDA, það er hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, 479 milljónir króna.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að tapið af rekstrinum megi rekja til þess að magnminnkun bréfa sé viðvarandi, á sama tíma og dreifingarnetið sé jafnstórt eða stærra frá ári til árs. „Með áframhaldandi magnminnkun áritaðra bréfa má búast við frekara tapi af rekstri Íslandspósts á næstu árum að óbreyttum kröfum í lögum og reglum um alþjónustu í póstdreifingu. Tapið mun aukast ár frá ári og rýra eigið fé félagsins ef ekki verður gripið til nauðsynlegra aðgerða sem háðar eru breytingum á lögum og reglum um póstþjónustu,“ segir Ingimundur í fréttatilkynningu.
Aðrar lykilupplýsingar um rekstur Íslandspósts á síðasta ári má sjá hér að neðan
Rekstrartekjur námu 7.279 millj. kr. sem er 7,2% aukning frá árinu áður
Rekstrargjöld námu 6.799 millj. kr. króna sem er 5,6% aukning frá árinu áður
EBITDA nam 479 millj. kr. sem er 37% hækkun frá árinu áður þegar EBITDA var 350 millj. kr.
Tap ársins 2014 var 43 millj. kr. samanborið við 119 millj. kr. tap árið áður
Handbært fé frá rekstri var 369 millj. kr. samanborið við 104 millj. kr. árið 2013
Fjárfestingarhreyfingar námu 454 millj. kr. samanborið við 251 millj. kr. árið áður
Handbært fé lækkaði um 189 millj. kr. á árinu og var 87 millj. kr. í árslok
Árituðum bréfum fækkar enn
Dreifikerfið stækkar sem leiðir til aukins kostnaðar
Fjöldi pakka og þyngri sendinga að aukast
Samkeppnishluti utan alþjónustu skilaði 240 millj. kr. í hagnað, segir í fréttatilkynningu.
Viðskiptamódel án alþjónustuskyldu gefur möguleika á að lækka kostnað um allt að 1.200 millj. kr. og getur það skapað svigrúm til þess að lækka burðargjöld bréfa um fjórðung