Hlutfall feðra sem tekur fæðingarorlof hefur farið lækkandi frá hruni og nú stefnir í að hlutfall feðra sem tóku fæðingarorlof árið 2013, verði með því lægsta í yfir áratug. Fréttablaðið greinir frá málinu á forsíðu blaðsins í dag.
Níu af hverjum tíu feðrum tóku fæðingarorlof árið 2009, en á síðasta ári lítur út fyrir að hlutfallið hafi lækkað um þrettán prósent og verði um 77 prósent. Í frétt Fréttablaðsins er haft eftir Eygló Harðardóttur velferðarráðherra að ástand á vinnumarkaði gæti skýrt þróunina, tekjulágir feður séu hræddari um störfin sín. Þá sé mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins séu með í ráðum hvað þetta varði.
Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra segir að glögglega hafi mátt sjá breytingar á fæðingarorlofi karla á síðustu árum, í samtali við Fréttablaðið. Þróunin sé afleiðing efnahagshrunsins sem Ísland gekk í gegnum. Hún telur eðlilegt að staldra við og íhuga hvað sé hægt að gera til að hækka hlutfall karla sem taki fæðingarorlof, og vill sjá greiningu á því hvers konar feður taka ekki fæðingarorlof. Hún hefur áhyggjur af því að sá ávinningur sem náðist með fæðingarorlofinu sé að einhverju leyti að ganga til baka.
Velferðarráðherra segir málið alvarlegt og vill fá breiða sátt um að bæta úr stöðunni. „Fæðingum hefur fækkað og lægra hlutfall feðra tekur fæðingarorlof. Ég hef sett á fót starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs. Ég tel mikilvægt að bæta stöðuna. Fæðingarorlof á Íslandi er styttra en á hinum Norðurlöndunum. Það sem skiptir máli er að aðilar vinnumarkaðarins komi að borðinu og þetta verði hluti af samningaviðræðum við nýja kjarasamninga eftir áramót,“ er haft eftir Eygló Harðardóttur í Fréttablaðinu.