Flestir telja að Sjálfstæðisflokkurinn sé best til þess fallinn að leiða alla málaflokka tengda efnahagsmálum á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. MMR skoðaði viðhorf fólks til þess hvaða flokkar væru bestir til að leiða skuldamál heimilanna, endurreisn atvinnulífsins, efnahagsmál almennt, skattamál, atvinnuleysi og málefni Íbúðalánasjóðs.
Rúmlega fjórðungur aðspurðra telur að Sjálfstæðisflokkurinn sé best til þess fallinn að leiða skuldamál heimilanna, en 19 prósent telja að Framsóknarflokkurinn sé bestur í því. Þetta hefur breyst mikið samanborið við janúar í fyrra, þegar 34,4 prósent svarenda sögðust treysta Framsóknarflokknum best.
40,9 prósent telja Sjálfstæðisflokkinn bestan almennt í að leiða efnahagsmál á Íslandi, aðeins fleiri en í janúar í fyrra, þegar 37,7 prósent töldu flokkinn bestan til þess fallinn að leiða efnahagsmálin. 41,4 prósent þeirra sem tóku afstöðu treystu Sjálfstæðismönnum best til þess að leiða endurreisn atvinnulífsins og 38,7 prósent í skattamálum. Þá telja 31,9 prósent Sjálfstæðismönnum best treystandi fyrir málefnum Íbúðalánasjóðs og 31,5 prósentum þykir hann best til þess fallinn að leiða í atvinnuleysismálum.
933 svöruðu könnun MMR, en hún var gerð 9. til 14. janúar. Vikmörk í könnun af þessu tagi geta verið 3,1 prósent.