Skólaárið 2012-2013 brautskráðust færri nemendur úr skólum á Íslandi en árið á undan, bæði á framhalds- og háskólastigi. Brautskráðum háskólanemum fækkaði um 78, eða um 1,9 prósent frá fyrra ári og er þetta annað árið í röð sem brautskráðum háskólanemum fækkar. Á framhaldsskólastigi fækkaði brautskráðum nemendum um 238 frá fyrra ári, eða 3,9 prósent.
Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag. Alls útskrifaðist 4.0001 nemandi af háskólastigi skólaárið 2012-2013, þar af nærri 2.600 vegna fyrstu háskólagráðu. Brautskráðum doktorum fjölgaði og hafa aldrei verið fleiri, eða 56. Þar af voru 15 erlendir ríkisborgarar.
Brautskráðir af framhaldsskólastigi þetta skólaár voru 5.907 talsins. Stúdentum fækkaði um 136 milli ára en árið á undan, 2011-2012, var metár í fjölda stúdenta.
Þá kemur fram í frétt Hagstofunnar að fleiri brautskráðust með sveinspróf en færri með iðnmeistarapróf. Alls voru 548 brautskráningar með sveinspróf skólaárið 2012-2013, 30 fleiri en árið áður, Karlar voru 78,8 prósent þeirra sem luku sveinsprófi. Meðalaldur við töku sveinsprófs var 29 ár en tíðasti aldur 22 ár. Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 199, 14 færri en árið á undan. Karlar voru 70,9 prósent iðnmeistara og var meðalaldur útskrifaðra iðnmeistara 35 ár.