Verði framlög til fangelsismála ekki aukin um 200 milljónir króna á næsta ári, ásamt því að felld verði niður 50 milljón króna hagræðingarkrafa á Fangelsismálastofnun ríkisins, mun afleiðingarnar verða þær að opna fangelsinu á Sogni verði lokað frá og með næstu áramótum, húsi 3 í lokaða fangelsinu á Litla Hrauni verði lokað allt næsta ár, boðunarlisti mun lengjast, fyrningar refsinga aukast, starfsfólk mun þreytast, starfsánægja þess mun skerðast og öryggismál fangelsa verða áfram í ólestri. Þá þarf einnig 150 milljónir króna til stofnunarinnar á fjáraukalögum í ár til að endar nái saman vegna reksturs fangelsa á árinu 2022. Samtals vantar því 400 milljónir króna í rekstur Fangelsismálastofnunar vegna áranna 2022 og 2023 ef ekki á illa að fara.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í sameiginlegu minnisblaði dómsmálaráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar til fjárlaganefndar.
Verði fangelsinu að Sogni, sem er annað tveggja opinna fangelsa í landinu, lokað munu tólf starfsmenn missa vinnuna og 21 fangelsispláss hverfa. Þar á meðal öll pláss fyrir konur að afplána í opnu fangelsi hérlendis. Verði Húsi 3 á Litla Hrauni lokað allt næsta ár myndi það þýða að fjórir til fimm starfsmenn myndu missa vinnuna og 23 fangelsispláss myndu hverfa. Alls myndi fangelsisplássum því fækka um 44 ef fjármagn fæst ekki.
317 bíða eftir því að afplána
Í lok september síðastliðins voru 279 karlar og 38 konur á biðlista eftir afplánun í fangelsi. Samanlagt voru því 317 manns að bíða eftir að afplána dóma sem þeir höfðu verið dæmdir til að sitja af sér. Ljóst má vera að sá listi myndi lengjast verulega ef ofangreind fangelsispláss tapast.
Umboðsmaður Alþingis birti í september skýrslu þar sem stóð að mögulega væri tilefni til að taka ólíka stöðu karla og kvenna í fangelsum landsins til sérstakrar skoðunar. Skýrslan var gerð í kjölfar þess að umboðsmaður fór í óvænta eftirlitsferð á Kvíabryggju þar sem 20 karlar afplána dóma. Var það mat hans að Kvíabryggja væri eftirsóknarvert fangelsi samanborið við önnur, en um svokallað opið fangelsi er að ræða. Eina opna úrræðið sem býðst konum er hins vegar Sogn, sem þykir ekki jafn eftirsóknarvert. Auk tveggja opinna fangelsa eru tvö lokuð fangelsi á Íslandi: áðurnefnt fangelsi á Hólmsheiði og Litla-Hraun.
Ráðherra vill fjölga föngum á Kvíabryggju
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tjáði sig um framtíðarsýn sína í þessum málum í ummælum við stöðuuppfærslu Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, í gær.
Þar sagði hann ástandið í fangelsum landsins alvarlegt en hann væri að bregðast við með margvíslegum hætti. Hann vilji meðal annars nýta Sogn fyrir þá sem eru frelsissviptir á vegum heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyta í stað hefðbundinna fanga og ef það verði ekki gert vill hann selja Sogn. „Á sama tíma eigi að byggja upp 2 x 30 fanga einingar á Kvíabryggju. Í rekstri þýðir það að við fjölgum rýmum í opnum fangelsum um 50% (úr 40 í 60) en þurfum sennilega ekki að fjölga, í þeim úrræðum, fangavörðum sem í dag eru 21 á 2 stöðum.“
Þá greindi Jón frá því að hann hefði haft frumkvæði að því að Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, hefði ásamt fjármálastjóra dómsmálaráðuneytisins verið kallaðir á fund fjárlaganefndar á mánuudag til að gera grein fyrir alvarlegri stöðu mála. „Á sama tíma vinnur fjármálaráðuneytið með tillögur mínar (sem þá verða vonandi lagðar fyrir fjárlaganefnd) um aukið framlag í fjáraukalögum til rekstrar á þessu ári og um aukið rekstrarfé til að geta sómasamlega staðið að rekstri á næsta ári. M.a. með því að fjölga fangavörðum og auka þjónustu við fanga m.a. vegna heimsókna fjölskyldna þeirra og fleira má nefna.“
Þá minnti Jón á að framkvæmdir fyrir meira en tvo milljarða króna ættu að fara af stað á Litla Hrauni fljótlega á næsta ári.