Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 5,8 prósent um næstu áramót, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands sem kynnt var á þriðjudag. Fjölbýli hækkar meira en sérbýli. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteignamat fjölbýlis um 10,8 prósent en sérbýli hækkar um 5,9 prósent.
Meðalhækkun á mati íbúðahúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 8,5 prósent. Fasteignamat íbúða hækkar mismikið eftir hverfum, mest miðsvæðis. Þannig
hækkar matið mest í miðborg Reykjavíkur, frá Bræðraborgarstíg að Tjörninni eða um 16,9 prósent og um 13,4 prósent í Ásahverfi í Garðabær. Matið hækkar um 12,7 prósent í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Bræðraborgarstígs og um 11,2 prósent í sunnanverðum Þingholtum. Mat lækkar um eitt prósent í Blesugróf.
Jón Ævar Pálmason verkfræðingur hefur birt á heimasíðu sinni, actuary.is, gagnvirkt kort sem sýnir hlutfallsbreytingu fasteignamats í hverri fasteign í Reykjavík, byggt á gögnum Þjóðskrár. Kortið má sjá hér að neðan. Betri mynd fæst af hverjum borgarhluta með því að þysja inn kortið.