Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 9,1 prósent frá maí 2014 til maí 2015. Árshækkun á fjölbýli var 9,5 prósent á þessu tímabili og 7,6 prósent á sérbýli. Miklar verðhækkanir urðu í maímánuði, þegar hækkanir voru 1,1 prósent milli mánaða. Þjóðskrá birti uppfærða vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í gær en vegna verkfalls lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verður töf á birtingu vísitölunnar fyrir júní. Fram kemur á vef RÚV að nú sé loks búið að fara yfir alla skjalabunkana sem söfnuðust upp í verkfallinu.
Hagfræðideild Landsbankans fjallar um þróun fasteignaverðs í dag og bendir á að hækkun fasteignaverðs hafi verið mesta fóðrið fyrir verðbólguna undanfarin misseri. Raunverð húsnæðis hafi hækkað mikið að undanförnu en það stóð hæst í október 2007. Það þyrfti að hækka um 33 prósent að raunverði til að ná þeim hæðum.
„Í maí hafði verðbólgan verið 1,6% á síðustu 12 mánuðum, en vísitala neysluverðs án húsnæðiskostnaðar hafði einungis hækkað um 0,3%. Þetta þýðir að raunverð húsnæðis hefur hækkað verulega á síðustu misserum. Enn er þó langt í land með að raunverðið nái þeim hæðum sem það var í á árunum 2005- 2008 og staðan nú er álíka og hún var í upphafi ársins 2005. Raunverðið fór hæst í október 2007 og það þyrfti að hækka um 33% til þess að ná þeim hæðum,“ segja sérfræðingar bankans.
Það er mat þeirra að nafnverð muni hækka áfram en raunverð muni ekki fylgja. „Ætla má að nafnverð íbúðarhúsnæðis muni hækka áfram í nánustu framtíð í svipuðum takti og verið hefur. Eftirspurn virðist það mikil að framboð anni henni ekki. Þá er útlit fyrir að verðbólga, án húsnæðiskostnaðar, aukist töluvert á næstu mánuðum og mun verða töluvert hærri en verið hefur á síðustu misserum. Raunverð íbúðarhúsnæðis mun því hækka minna en nafnverð á næstu mánuðum, ef fer sem horfir.“