Alls var 183 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku og þar af voru 138 um eignir í fjölbýli, 35 um sérbýli og tíu um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 7.440 milljónir króna og meðalupphæð á samning var 40,7 milljónir króna, samkvæmt vikulegum gögnum Þjóðskrár Íslands um veltu á fasteignamarkaði. Er þetta mesti fjöldi samninga síðan í nóvember 2007 og þarf að fara aftur til september 2007 til þess að finna sömu veltu að nafnverði á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu.
Þjóðskrá hefur á síðustu þremur vikum birt vikulegar upplýsingar um þróun á fasteignamarkaði, líkt og mörg undanfarin ár. Á tíu vikna tímabili fyrir þann tíma birtust þó engar nýjar upplýsingar, eins og sjá má á gröfunum hér að neðan, vegna þess að engir samningar voru þinglýstir á meðan verkfall lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu stóð yfir. Verkfallið hefur þannig bein áhrif á aukinn fjölda þinglýsinga í síðustu viku, þar sem reynt er að klára að saminga sem biðu þinglýsingar.