Maður sem hvorki greiddi af húsnæðislánum né var skráður fyrir þeim á árunum 2008 og 2009 á rétt á tæplega 1,2 milljónir króna í leiðréttingu. Hann bjó með konu sem var skráð fyrir fasteignaláni og var eini greiðandi af því hluta þess tímabils sem leiðréttingin náði til. Þau slitu samvistum skömmu eftir að leiðréttingartímabilinu lauk. Samt sem áður á maðurinn rétt helming þeirrar leiðréttingar sem greidd var út vegna verðtryggðs fasteignaláns konunnar. Og hlutur konunnar skerðist að sama skapi um helming óháð því hvort maðurinn sæki um leiðréttingu eða ekki.
Konan vildi ekki sætta sig við þessa niðurstöðu og kærði hana til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Hún skilaði niðurstöðu sinni 18. júní síðastliðinn og niðurstaðan er sú að maðurinn heldur rétti á leiðréttingargreiðslu sinni.
Einn skuldari og greiðandi
Málavextir eru raktir í úrskurði nefndarinnar. Þar segir að konan hafi sótt um leiðréttingu og samkvæmt niðurstöður útreikninga átti hún tilkall til 1.164.064 króna, eða helmings þeirrar leiðréttingarupphæðar sem til féll vegna fasteignar hennar. Fyrrum sambýlismanns hennar, sem var aldrei skráður fyrir húsnæðisláninu sem hvílir á fasteign hennar, átti rétt á hinum helmingi greiðslunnar. Því gat sama upphæð, 1.164.064 krónur, fallið í hlut hans ef hann sótti um leiðréttingu, en ekki kemur fram í úrskurðinum hvort hann gerði það.
Við þetta vildi konan ekki sætta sig og kærði niðurstöðuna til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.
Í kærunni motmæli konan því að fyrrum sambýlismaður hennar eigi rétt á 50 prósent þeirrar leiðréttingar sem ríkissjóður greiddi vegna fasteignar hennar. Í kærunni bendir konan á að hún hafi „alla tíð verið eini skuldari og greiðandi af lánum sem hvíli á þeirri fasteign sem leiðréttingin byggi á“.
Þar kemur líka fram að konan hafi verið í sambúð með fyrrum sambýlismanni sínum frá október 2008 en hún hafi slitið sambúð við hann á árinu 2010. „Í bréfinu lýsti kærandi jafnframt furðu sinni á því að einstaklingur gæti átt rétt á 50% leiðréttingu þegar lán hafi verið óskuldbindandi gagnvart honum og jafnframt benti kærandi á að mótsögn fælist í því að í niðurstöðu leiðréttingarinnar væri hægt að skilgreina aðila sem sambúðaraðila á grundvelli leiðréttingar en ekki sem sambúðaraðila á grundvelli umsóknar“.
Uppfylltu skilyrði samsköttunar
Í lögum um leiðréttingu er fjallað um afmörkun hennar. Þar segir meðal annars að hún taki til „einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði samsköttunar innan leiðréttingartímabils“, en það tímabil eru árinu 2008 og 2009. Þ.e. allir þeir sem voru með verðtryggð húsnæðislán á þeim árum gátu sótt um leiðréttingu.
Það var því ekki skilyrði að fólk væri samskattað til að báðir aðilar ættu rétt á leiðréttingu, heldur einungis að þau uppfylltu skilyrði samsköttunar. Þ.e. að það væri mögulega hægt að samskatta þau, ef þau hefðu valið að gera það.
Í athugasemdum við lögin um leiðréttingu, þar sem fjallað er um afmörkun þeirra, segir enn fremur: „Á þessu forsendum er litið svo á að tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu var ætlað til[...]Skilnaður hjóna eða samvistarslit hefur þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar“.
Maðurinn átti rétt á helmingi leiðréttingar
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er afgerandi. Maðurinn átti rétt á helmingi leiðréttingar konunnar óháð því hvort hann hafi nokkru sinni verið skráður fyrir húsnæðisláninu eða borgað af því. Það skipti einfaldlega ekki máli að fyrrum sambýlismaður hennar hafi hvorki verið skráður fyrir húsnæðisláni hennar né borgað af því.
Í niðurstöðunni segir að „tilkall til leiðréttingar vegna lána til öflunar húsnæðis til sameiginlegs heimilishalds eigi jafnt við um hjón og einstaklinga sem höfðu sambærilega fjárhagslega samstöðu vegna sambúðar óháð því hvort viðkomandi var formlega skráður fyrir lánum á því tímabili sem leiðréttingu er ætlað að taka til. Réttur eða tilkall til leiðréttingar kann þannig að ráðast af hjúskaparstöðu á tímabilinu eða innan áranna 2008–2009. Skilnaður hjóna eða samvistarslit hefur þannig ekki í för með sér brottfall réttar til leiðréttingar“.
Kröfu konunnar var því hafnað.