Alþingi samþykkti í síðustu viku breytingu á búvörulögum sem festir í sessi núverandi fyrirkomulag útboðs á innflutningskvótum fyrir búvörur. Stjórnarflokkarnir tveir og þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði með breytingunni en þingmenn Samfylkingar og Bjartrar framtíðar á móti. Félag Atvinnurekenda segir að með breytingartillögunni sé verið að hylma yfir brot á réttindum neytenda og að um enn eitt dæmið sé að ræða þar sem Alþingi standi vörð um „þrönga hagsmuni og ónýtt kerfi.“
Samkeppniseftirlitið hefur bent á að fyrirkomulag sem nú er um útboð á innflutningskvótum fyrir búvörur, og byggir á áratuga gömlum viðmiðum, stuðli að hærra vöruverði, hamli samkeppni og hindri aðgang nýrra innflutningsfyrirtækja að markaðnum. Vegna þess hefur eftirlitið ítrekað lagt til að útboð á tollkvótum verði aflagt, síðast í skýrslu sinni um dagvörumarkaðinn sem var gefin út í mars síðastliðnum. Þar er lagt til að „Útboð landbúnaðarráðuneytisins á tollkvótum vegna innflutnings á kjöti, smjöri og ostum verði felld niður í núverandi mynd. Verði þau ekki lögð niður er lagt til að úthlutun verði endurgjaldslaus og eftir atvikum hlutkesti varpað sé ásókn umfram kvóta.“
Lítil sem engin umræða í þinginu
Í frétt sem birtist á vef Félags atvinnurekenda í dag er vakin athygli á því að skömmu fyrir þinglok í síðustu viku hafi meirihluti atvinnuvegnaefndar skilað nefndaráliti. Því áliti hafi fylgt breytingartillaga, um að fella burt heimild ráðherra í búvörulögunum til að láta hlutkesti ráða úthlutun þegar umsóknir berast um meiri innflutning en nemur tollkvóta. Í nefnarálitinu segir: „Ástæða tillögu þessarar eru dómar sem féllu nýverið í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það að ráðherra hafi val um hvorri aðferð 3. mgr. 65. gr. sé beitt, þ.e. hvort hlutkesti sé varpað eða tilboða leitað, feli í sér að hann hafi ákvörðunarvald um hvort skattur sé lagður á eða ekki.“
Félag atvinnurekenda segir að þessi veigamikla breyting hafi fengið litla sem enga umræðu í atvinnuveganefnd né á Alþingi áður en breytingartillagan var samþykkt. Þingmenn Bjartrar framtíðar og Samfylkingar greiddu atkvæði gegn henni þegar hún var að lögum en stjórnarflokkarnir og Vinstri grænir studdu hana.
Hylmt yfir brot í stað þess að rétta hlut neytenda
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í fréttinni að vinnubrögðin með ólíkindum en að þau komi ekki að öllu leyti á óvart. „Þegar kemur að landbúnaðinum virðast bæði ríkisstjórn og Alþingi, sama hver er þar í meirihluta, líta svo á að sjónarmið um samkeppni og hag neytenda skipti ekki máli. Þegar brotið er á rétti neytenda fer löggjafinn í það að hylma yfir brotið og réttlæta það í stað þess að rétta hlut neytenda. Þetta er galið.[...]Þetta er því miður enn eitt dæmið um að Alþingi stendur vörð um þrönga hagsmuni og ónýtt kerfi. Réttur neytenda skiptir engu máli.“