Stjórn Félags atvinnurekenda mótmælir áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja fram tillögu um formleg slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið og afturkalla umsókn um aðild að sambandinu. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn félagsins samþykkti í dag.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Félagið skorar á stjórnvöld að endurskoða afstöðu sína og útiloka ekki augljósa valkosti í peningamálum þjóðarinnar.
„Þótt núverandi ríkisstjórn telji sig ekki hafa pólitískar forsendur til að ljúka aðildarviðræðum er afar óskynsamlegt og misráðið að fækka valkostum Íslands í peningamálum með því að afturkalla aðildarumsóknina,“ segir í ályktuninni. Þetta þýði að ef stjórnvöld síðari tíma telji upptöku evru með ESB-aðild vera skynsamlegan kost muni það taka lengri tíma og verða kostnaðarsamara en annars að taka upp viðræður og ná því takmarki.
„FA telur að ekki séu forsendur til þess að skella þannig dyrum í lás á þessum tímapunkti. STjórn FA telur jafnframt að það sé ábyrgðarlaust og ónauðsynlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að hella þannig olíu á eld pólitískra deilna á sama tíma og staðan á vinnumarkaði er erfiðari og viðkvæmari en um langt skeið.“
Þingsályktunartillaga um afturköllun á aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er ekki komin fram, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í þinginu í síðustu viku að hann byggist við því að hún kæmi fram á næstu dögum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafa báðir einnig tjáð sig um að tillagan komi fram á vorþingi.