Félag prestvígðra kvenna skorar á valnefndir, prófasta og biskup Íslands að tryggja aðgengi þjóðkirkjufólks að jafnri þjónustu beggja kynja innan sókna, samstarfssvæða eða prófastsdæma. Þá gagnrýnir félagið Þjóðkirkjuna fyrir hversu lítinn framgang konur hafi fengið við veitingar embætta á umliðnu ári.
Þetta er á meðal þess sem finna má í ályktun sem samþykkt var á framhaldsaðalfundi félagsins í dag, þar sem athygli kirkjunnar er vakin á þeirri staðreynd að einungis þriðjungur þjónandi presta á Íslandi séu konur.
Í ályktuninni segir: „Félag prestsvígðra kvenna fagnar því hversu margar frambærilegar konur hafa lokið guðfræðinámi og sækjast eftir embættum og trúnaðarstörfum í þjóðkirkjunni. Hins vegar gagnrýnir fundurinn hversu lítinn framgang konur hafa fengið í vali og veitingum embætta á umliðnu ári en á árinu fengu fimm karlar og fjórar konur embætti, en á móti gengu sjö konur og tveir karlar úr embætti, þannig að kynjahallinn hefur enn aukist. Að auki bendir fundurinn á að af þeim sem hlutu vígslu árið 2014 voru 5 karlar og 2 konur.“