Félagsmenn VR samþykktu verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í dag. Verkföll innan VR munu hefjast þann 28. maí með tveggja daga verkfalli starfsmanna í hópbifreiðafyrirtækjum. Fleiri starfsgreinar munu svo fylgja í kjölfarið og ótímabundið allsherjarverkfall á að hefjast þann 6. júní.
Annars vegar var kosið meðal félagsmanna sem starfa í fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins og hins vegar innan Félags atvinnurekenda. Hjá SA sögðu 58 prósent já við boðun verkfall, en þátttakan var rúm 25 prósent. Hjá FA sögðu 57,4 prósent já en kosningaþátttaka var tæplega 30 prósent.
Starfsmenn í hópbifreiðafyrirtækjum fara sem fyrr segir í tveggja daga verkfall 28. maí. 30. maí fer starfsfólk á hótelum, gististöðum og baðstöðum í verkfall og 31. maí starfsfólk í flugafgreiðslu. 2. júní fer starfsfólk í skipafélögum og matvöruverslunum í verkföll og 4. júní starfsfólk olíufélaga. Öll verkföllin eru tveggja sólarhringa verkföll.