„Það er allt fullt hjá okkur 18., 19., 20., og 21. mars, og greinilega mikill áhugi á sólmyrkvanum,“ segir Rakel Húnfjörð, hjá Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Mikill áhugi er erlendis frá á sólmyrkvanum en hinn 20. mars nk. verður mesti sólmyrkvi sjáanlegur hér á landi í rúm 60 ár. Þá mun tunglið myrkva allt að 99% af skífu sólar á Austurlandi en aðeins minna í höfuðborginni.
Svipaða sögu er að segja af öðrum hótelum í Reykjavík, og raunar víðar um landið. Flest hótel eru með fulla nýtingu á þessum tíma, og ljóst að þetta kemur sér vel fyrir ferðaþjónustuna. Í næstu viku verður einnig hið árlega EVE Fanfest, þar sem aðdáendur tölvuleiksins EVE Online koma hingað til lands og skemmta sér. Þúsundir gesta hafa sótt hátíðina undanfarin ár.
Ferðamannaárið hefur byrjað af miklu krafti, en rúmlega 70 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað til lands í febrúar sem er 34,4 prósent fjölgun miðað við sama mánuð árið á undan. Þar af voru Bretar um 40 prósent af heildarfjöldanum.